Ísafjarðarbær heimilar breytingu á aðalskipulagi vegna nýs vegar yfir Dynjandisheiði

Mynd 2 sýnir veglínurnar tvær sem eru til skoðunar.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur heimilað Vegagerðinni að hefja breytingu á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar sem gerir ráð fyrir nýjum vegi frá Dynjandisvogi í Borgarfirði í Arnarfirði að sveitarfélagsmörkum Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar efst á Dynjandisheiðinni.

Um er að ræða 11 km langan kafla og er ráðgert að aðalskipulagsbreytingunni verði lokið síðar á árinu. Alls er um nýjan veg að ræða frá Dynjandisvogi að Flókalundi og niður í Trostansfjörð að Bíldudal um 62 – 69 km. Vegagerðin sækir um viðeigandi aðalskipulagsbreytingar til Vesturbyggðar fyrir þann hluta vegarins sem er innan Vesturbyggðar.

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út á þessu ári þennan nýja veg yfir Dynjandisheiðina.

Núverandi Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði liggur að hluta til á friðlýstu svæði og hverfisvernduðu svæði skv. aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Friðlýsta svæðið er Dynjandi sem var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1981
og er svæðið tæplega 650 ha að stærð.

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um veglínu en á mynd 1 að neðan má sjá afmörkun skipulagsbreytingarinnar og á mynd 2 má sjá þá valkosti sem verða skoðaðir.

DEILA