Hrossagaukur óskar eftir kosningastjóra

Á vefsíðunni fuglavernd.is stendur nú yfir kosning á fugli ársins 2021. Atkvæði streyma inn í tengslum við kjörið á Fugli ársins og hafa nú um 1500 manns greitt atkvæði. Allir sem hafa íslenska kennitölu hafa atkvæðisrétt og engin aldursmörk eru á kjörgengi. Velja má allt að 5 fugla sem 1.-5. val en ekki má setja sama fuglinn í fleiri en eitt sæti.

Eitt er samt ekki gott og það er að hrossagaukurinn var svo óheppinn að týna kosningastjóranum sínum í kosningabaráttunni um titilinn einhvers staðar á leiðinni til landsins og auglýsir hér með eftir nýjum til að hjálpa sér á lokaspretti kosningarinnar.

Það er trú manna að hrossagaukurinn geti ekki hneggjað eða ekki fái málið sem kallað er fyrr en hann er búinn að fá merarhildar að éta á vorin. Skal þá taka mark á því í hverri átt maður heyrir hann hneggja því það er fróðra manna sögn að hann spái um forlög manna eins og segir í vísunni: „Heyló syngur sumarið inn, semur forlög gaukurinn, áður en vetrar úti er þraut, aldrei spóinn vellir graut“ Má þannig marka hvað fyrir manni liggur af því hvar gaukurinn fyrst heyrist hneggja. Eftir því er farið hvar eða í hverri átt maður fyrst heyrir til hrossagauksins á vorin og er:“ í austri ununar gaukur [aðrir: auðs gaukur], í suðri sæls gaukur, í vestri vesæls gaukur, í norðri náms gaukur. Uppi er auðs gaukur [aðrir: ununar gaukur]niðri er nágaukur. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar, 1. bindi bls. 620)