Hinir raunverulegu áhrifavaldar

Oft heyrum við minnst á minnkandi þátttöku fólks í félagsstarfi, sjálfboðastarfi og öðru því sem krefst þess fyrst og fremst að fólk gefi tímann sinn. Við erum mörg tilbúin til að verja tíma okkar í eitthvað sem þarf að borga öðrum fyrir, en við erum einnig orðin fleiri sem sjáum að tímanum er best varið í að hugsa um fjölskylduna og þau sem næstu okkur standa. Við höfum líka nánast verið tilneydd undanfarið ár að verja meiri tíma heima að „gera ekkert“ með okkar nánustu og líklega erum við flest farin að þrá örlítið meira annríki í félagslífinu.

Á fjögurra ára fresti setjum við það í hendur samborgara okkar að velja fólk til að ákveða þá stefnu sem þjóðfélagið á að taka í öllu því sem mannlegt vald getur haft áhrif á. Það eru málefni eins og hvernig við forgangsröðum í heilbrigðiskerfinu, hversu hátt við eigum að halda á lofti mannréttindamálum, hvar í röðinni umhverfismálin lenda og hvort velferð barna og aldraðra eigi að vera ofarlega á blaði. Það er ekki sjálfsagt að í boði sé stefna eða stjórnmálamenn sem hugnast hverjum og einum. Að taka þátt í grasrótarstarfi stjórnmálahreyfinga er líklega með því áhrifamesta sem hægt er að gera fyrir samfélagið sitt. Að finna að grunngildi stjórnmálahreyfingar séu í takt við þau sem við sjálfum höfum í lífinu er fyrsta skrefið. Það er aldrei svo að í slíkum fjöldasamkomum séu allir á einu máli, enda er það sjaldnast þannig með nokkurn hlut. Þá skiptir máli að hafa sterk rök, nota röddina sína og afla hugmyndum sínum fylgis á lýðræðislegan hátt. Þegar svo kemur að því að bjóða kjósendum að velja, hefur grasrótin mótað stefnuna í takt við hugmyndir félaganna um hvað sé besta leiðin að góðu samfélagi.

Þannig má segja að við séum öll hinir einu sönnu áhrifavaldar í samfélaginu og það er alltaf pláss fyrir fleiri vestfirskar raddir meðal áhrifavalda.

Sigríður Gísladóttir

Formaður Svæðisfélags Vinstri grænna á Vestfjörðum

DEILA