Gönguhátíð í Súðavík 2021 um verslunarmannahelgina

Eins og undanfarin ár verður Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina, dagana 30. júlí – 2. ágúst.

Fjölbreyttar göngur verða fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin.
Gönguhátíðin er haldin í samvinnu Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og gönguklúbbsins Vesens og vergangs.

Göngudagskráin er staðfest en settur er fyrirvari við skemmtidagskrána en allar upplýsingar má finna á facebook síðunni Gönguhátíð í Súðavík 2021

Fylgjast þarf sérstaklega með öllum sóttvarnarreglum í aðdraganda gönguhátíðarinnar. Réttur er áskilinn til að breyta dagskrá, fella niður eða laga einstaka liði að reglum eða hætta alfarið við hátíðina ef sóttvarnarreglur krefja. Ef hætt er við hátíðina verða fyrirframgreidd armbönd endurgreidd.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður hægt að fá upplýsingar um hvaðeina sem tengist gönguhátíðinni, kaupa armband (og fá afhent fyrirframgreitt armband) eða aðgang að einstökum göngum, fá upplýsingar um dagskrá, ráðgjöf um búnað, borða hafragraut á morgnana og drekka kaffi og te allan daginn og fara í fiskisúpuveislu á föstudagskvöldinu.

Um göngurnar
Almennt séð eru fjöll og heiðar á þessum slóðum grýtt. Þannig er um flestar göngurnar nema láglendisgöngur. Gott er að vera með göngustaf eða stafi og gæta þess þá að hafa lykkjuna ekki utan um úlnliði. Þá er gott að vera í gönguskóm með góðu gripi á sóla. Mikilvægt er að velja göngur við hæfi og nota vegalengd og hækkun á leið sem mælikvarða.
Almennir fyrirvarar gilda um göngur út frá veðri og aðstæðum. Ef fella þarf niður göngu eða göngur vegna slíks þá er stefnt á að vera með aðrar göngur í staðinn.
Þátttakendur mæta í göngur á eigin ábyrgð og er bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

DEILA