Gallerí úthverfa: Carbon – kolefni

Í gær fimmtudaginn 22. apríl n.k. – sumardaginn fyrsta – kl. 17 var opnuð fjórða sýningin í röð sjö örsýninga undir yfirskriftinni CARBON-KOLEFNI vísindi listanna – listin í vísindunum í glugga Gallerí Úthverfu á Ísafirði.

Sýningin er samstarfsverkefni Jóns Sigurpálssonar myndlistarmanns á Ísafirði og Cristian Gallo vistfræðings hjá Náttúrustofu Vestfjarða og ber heitið ,,Handan við hafdjúpin bláu/Beyond the blue oceans deep and wide.’’

Rannsóknastjóri Háskólaseturs Vestfjarða Dr. Catherine P. Chambers og gestavinnustofur ArtsIceland ásamt Galleríi Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði hafa unnið saman um nokkurt

skeið að undirbúningi verkefnisins CARBON – KOLEFNI. Markmið verkefnisins er að leiða saman fólk á vísinda- og listasviðinu til samvinnu um ýmis rannsóknarverkefni og miðla afrakstri samvinnunnar til almennings með sýningum og margvíslegum öðrum miðlunarleiðum. Tilgangurinn er m.a. að gefa vestfirsku listafólki fleiri tækifæri til að þróa og sýna verk sín og gera vinnu þeirra sem starfa í vísindasamfélagi Vestfjarða sýnilegri og styrkja með því vestfirskt rannsóknasamfélag. Gluggasýningarnar í Úthverfu er einungis fyrsti hluti verkefnisins sem mun taka á sig fleiri birtingarmyndir á næstu misserum.

Jón Sigurpálsson og Cristian Gallo:

Handan við hafdjúpin bláu – Beyond the Blue Oceans Deep and Wide.

Jón Sigurpálsson (1954) býr og starfar á Ísafirði. Hann menntaði sig til myndlistar í Reykjavík og Hollandi og hefur sýnt verk sín á sýningum hér heima og erlendis í á fjórða áratug.

Cristian Gallo er vistfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Hann starfar við vöktun og rannsóknir á dýralífi fjara og sjávarbotns, skordýrum og fuglum. Vetrarfugla-, bjargfugla- og mófugla-vaktanir eru meðal þeirra verkefna sem hann sinnir tengdum fuglum en síðasta sumar byrjaði hann jafnframt að fylgjast með stofnstærð kría og hvítmáfa á Vestfjörðum.

Sýningarstjóri er Heiðrún Viktorsdóttir.