Galdrasýning á Ströndum: Staða og verkefni

Galdrasýning á Ströndum er orðin 20 ára, afmælissýning er uppi á Hólmavík og búið að opna nýjan vef á slóðinni galdrasyning.is. Á þessum tímamótum er vel við hæfi að fara aðeins yfir stöðu sýningarinnar og verkefni framundan. Á síðasta ári og þessu hefur áhersla verið lögð á umbætur á húsnæði og umhverfi sýningarinnar á Hólmavík. Búið er að gera umhverfisátak í galdragarðinum, skipta um torf á þaki sýningarhússins, mála veggi sýningarinnar og setja upp nýjar merkingar. Skúlptúr var reistur á galdratúninu í tengslum við 20 ára afmælið, til minningar um Klemus Bjarnason sem bjó við Steingrímsfjörð og var síðastur allra var dæmdur til dauða fyrir galdra á Íslandi. Síðast en ekki síst eru framkvæmdir við þakið á austurhúsinu komnar vel á veg. Framundan er að klæða þakið með svartmáluðu timbri á næstu vikum. Stefnt er að því að klæða veggina með sama útliti í beinu framhaldi.

Í Bjarnarfirði eru verklegar framkvæmdir líka á dagskrá í sumar. Ætlunin er að lagfæra Kotbýli kuklarans. Stefnan er að safna saman sjálfboðaliðum til að moka ofan af hluta húsanna um hvítasunnuhelgina. Halda síðan áfram, gera við timburgrindina og tyrfa aftur yfir, áður en kotbýlið verður opnað gestum að nýju. Þegar húsin verða aftur upp á sitt besta, blasir svo næsta verkefni við. Þá er tímabært að huga að sýningunum sjálfum, lagfæra þær og endurnýja.

Galdrasýning á Ströndum er rekin af sjálfseignarstofnun sem heitir Strandagaldur. Slíkar stofnanir hafa samfélagsleg markmið og Strandagaldri er ætlað að styðja við byggðina, hafa jákvæð margfeldisáhrif fyrir ferðaþjónustu og efla menningarstarf, fræði og rannsóknir. Samkvæmt nýlegri stefnu Strandagaldurs er nú lögð aukin áhersla á samstarf við grunnskólana á svæðinu og hafa verkefni í þeim anda verið á dagskrá síðustu misseri. Sjálfseignarstofnanir eiga sig sjálfar, ef svo má segja, þær eru ekki hagnaðardrifnar og út úr þeim er aldrei borgaður arður. Sértekjur og allur stuðningur er nýttur til uppbyggingar og til að efla starfsemina.

Tuttugu ára saga Galdrasýningarinnar er að mörgu leyti saga erfiðra tíma, hvað varðar fjárhagsstöðu og framkvæmdir. Stundum hefur reyndar verið sagt að það sé ekkert minna en kraftaverk að verkefnið skuli enn halda velli og sýningin starfi enn. Krepputímum hefur verið mætt með öflugri hugmyndavinnu, margvíslegum uppátækjum og framtaki, þannig að nóg hefur líka verið af gleðistundum í starfinu. Það verður líka alveg stórmagnað ef tekst að ljúka umbótum utanhúss bæði á Hólmavík og í Bjarnarfirði á þessum erfiða Covid-tíma, sem auðvitað hefur sett óvænt strik í reikninginn. Það verkefni hefur verið í gangi allt frá stofnun Strandagaldurs, í rúm 20 ár, og það verður vissulega fagnaðarefni að geta lokið þeim framkvæmdum.

Strandagaldur hefur á síðustu misserum fengið góðan stuðning við uppbygginguna, umbætur og viðhald. Myndarlegur stuðningur fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nú  í vor til að lagfæra Kotbýlið sem er að niðurlotum komið og í mörg ár hefur Uppbyggingarsjóður Vestfjarða stutt myndarlega við rekstur Galdrasýningarinnar. Á síðasta ári fékkst einnig góður styrkur úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda til framkvæmda á Hólmavík og sveitarfélagið Strandabyggð hefur sömuleiðis stutt myndarlega við reksturinn, m.a. með samstarfssamningi um rekstur upplýsingaþjónustu fyrir ferðafólk í rúman áratug. Færum við öllum þessum aðilum okkar allra bestu þakkir fyrir að fylgja okkur á þessari vegferð, þar sem þolinmæði og þrautseigja hefur reynst dýrmætasta veganestið. Samningurinn við sveitarfélagið um upplýsingaþjónustuna rann út um síðustu áramót og var ekki endurnýjaður, enda eru breyttir tímar. Sveitarfélagið styður þó áfram við rekstur og uppbyggingu sýningarinnar og síðastliðið haust var samþykkt að gera nýjan samning um stuðning við uppbyggingu og rekstur til þriggja ára. Allur þessi stuðningur er starfseminni sérlega mikilvægur.

Galdrameistarinn Sigurður Atlason var lengstum í fararbroddi við að halda galdraverkefninu á floti, en nú hefur Anna Björg Þórarinsdóttir staðið við stjórnvölinn sem framkvæmdastjóri í tvö ár. Í stjórn Strandagaldurs sitja Jón Jónsson á Kirkjubóli sem nú er stjórnarformaður, Þórunn Einarsdóttir á Hólmavík, Valgeir Benediktsson í Árnesi, Ólafur Ingimundarson á Svanshóli og Magnús Rafnsson á Bakka. Tveir þeir síðastnefndu hafa setið samfellt í stjórninni frá stofnun. Ekki eru greidd laun fyrir stjórnarsetu eða stjórnarfundi.

Við þökkum kærlega fyrir allan velvilja og stuðning í gegnum árin og vonum að sumarið verði gleðilegt og gæfuríkt. Sjálf ætlum við að halda ótrauð áfram.

Jón Jónsson, stjórnarformaður Strandagaldurs
Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri





Anna Björg Þórarinsdóttir tók myndirnar
DEILA