Farfuglarnir farnir að koma

Farfuglarnir eru farnir að koma enda sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn.

Grágæs og álftir komu til Vestfjarða í lok mars og hefur þeim fjölgað talsvert síðustu daga. Nokkrir stelkar höfðu vetursetu m.a. í Skutulsfirði en nú er fjöldi þeirra að aukast sem bendir til að farfuglarnir séu byrjaðir að sýna sig.

Skógarþröstur sást á Ísafirði um 10. apríl og hefur þeim fjölgað mikið frá þeim degi.

Nokkrir hettumáfar sáust á Ísafirði og í Bolungarvík fyrir 10. apríl. Þann 17. apríl sáust stærri hópar hettumáfa á Pollinum í Skutulsfirði, í Önundarfirði og Dýrafirði og voru yfir 100 fuglar í hverjum þessara hópa.

Þann 18 apríl sáust við Holt í Önundarfirði 2 jaðrakanar og 38 heiðlóur en 8 heiðlóur til viðbótar voru við Hauganes í Skutulsfirði og svo gætum við átt von á að krían fari að láta sjá sig.