Björgunaræfingin Arctic Guardian hafin

Landhelgisgæsla Íslands í samvinnu við Umhverfisstofnun stendur í vikunni fyrir alþjóðlegu leitar-, björgunar-, og mengunarvarnaæfingunni Arctic Guardian sem að þessu sinni fer fram á netinu vegna heimsfaraldursins sem nú geisar. 

Á æfingunni eru viðbrögð við stórslysi undan Norðurlandi æfð af fulltrúum átta strandgæslna sem mynda samstarfsvettvanginn Arctic Coast Guard Forum auk samstarfsstofnana. Landhelgisgæsla Íslands hefur undanfarin tvö ár gegnt formennsku í ráðinu. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, flutti ávarp við upphaf æfingarinnar.

Í vikunni verður botninn sleginn í formennskutíð Landhelgisgæslunnar með umræddri æfingu auk ráðstefnu sem haldin er samhliða og nefnist Arctic Coast Guard Dialogue. 

Ráðstefnan er unnin í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Norðurslóðanetið. Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar. Á ráðstefnunni verða konur í sjómennsku til umræðu auk þvermenningarlegra samskipa og einnig verður fjallað um hvernig bregðast eigi við mengun í hafi. Georg flutti einnig ræðu við upphaf ráðstefnunnar.

Síðar í vikunni stendur Landhelgisgæslan fyrir fundi með forstjórum strandgæslanna þar sem helstu áskoranir á svæðinu verða ræddar. Rússland tekur svo við formennsku af Íslandi í ráðinu að fundi loknum.

DEILA