Baldur 30 ára

Í gær voru þrjátíu ár síðan ár frá því að sjómælingabátnum Baldri var hleypt af stokkunum á Seyðisfirði. Báturinn hefur reynst Landhelgisgæslunni afar vel á þeim þrjátíu árum sem hann hefur verið nýttur til sjómælinga, eftirlits, löggæslu, æfinga og margvíslegra annarra verkefna enda fjölnota með meiru.

Baldur var smíðaður úr áli af Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem eftirlits- og sjómælingabátur fyrir Landhelgisgæsluna og var hann sjósettur hinn 14. apríl 1991. Baldur kom svo til heimahafnar í Reykjavík 12. maí 1991.

Fyrir 30 árum síðan var stærstur hluti strandlengjunnar og hafsvæðið næst henni nánast ómælt og ókortlagt. Þar voru firðir og siglingaleiðir að höfnum engin undantekning. Mikið hefur áunnist á þessum árum og flestar af helstu siglingaleiðum umhverfis landið hafa verið kortlagðar sjófarendunum til mikils öryggis og hægðarauka.

 Baldur er tveimur aðalvélum og skrúfum og er því mjög lipur í stjórntökum sem gerir bátinn sérlega hentugan í hin ýmsu verkefni. Baldur er sérstaklega útbúinn til sjómælinga fyrir sjókortagerð og um borð er m.a. fjölgeislamælir og fullkominn staðsetningabúnaður til að uppfylla alþjóðlegar kröfur um sjókortagerð. Um borð í Baldri er einnig léttbátur sem búinn er dýptarmæli til mælinga á grynningum og allra næst ströndinni. Að öllu jöfnu er fjögurra manna áhöfn á Baldri en vistarverur eru fyrir átta manns.

DEILA