Veðurstofuna vantar skriðusérfræðing á Ísafjörð

Veðurstofa Íslands auglýsir eftir skriðusérfræðingi í fullt starf á Úrvinnslu-og rannsóknarsviði.

Á sviðinu starfa um 50 manns við ýmis spennandi þróunar- og rannsóknarverkefni er tengjast veður- og loftslagsrannsóknum, ofanflóðahættumati, jökla-, vatna- og haffræði, jarðskorpuhreyfingum og eldgosum.

Veðurstofa Íslands er sömuleiðis leiðandi stofnun í vinnu við áhættumat í tengslum við náttúruvá og er vinna við áhættumat tengd flóðum, ofanflóðum og eldgosum sífellt stærri hluti af verkefnum sviðsins.

Skriðuföll á síðustu misserum hafa undirstrikað hversu umfangsmikil og hættuleg þessi náttúruvá er á Íslandi. Umhverfisbreytingar tengdar hlýnandi loftslagi geta aukið skriðutíðni en einnig kallar breytt landnýting og aukinn fjöldi ferðamanna á fjölmennum ferðamannastöðum á stóraukna kortlagningu skriðuhættu og vöktun á óstöðugum hlíðum.

Nýjar aðferðir í mælitækni og fjarkönnun hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum á þessu sviði og eru mörg tækifæri til frekari þróunar.

Starf skriðusérfræðings fellur undir fagsvið ofanflóða en samtals koma um 15 einstaklingar að vinnu við ofanflóð á stofnuninni og eru flestir staðsettir á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði.

Saman vinna þau að hættumati, vöktun og rannsóknar- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðum, þ.m.t. skriðumálum.

DEILA