ÚUA hafnar því að ógilda rekstrarleyfi fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi

Fyrirhuguð eldissvæði Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi.

Á föstudaginn hafnaði úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál kröfu Atla Árdal Ólafssonar frá Rauðamýri á Langadalsströnd, sem krafðist þess að útgefið rekstrarleyfi Matvælastofnunar til Arctic Farm Sea fyrir 5.300 tonna eldi á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi hrði fellt úr gildi. Leyfið var gefið út 4. september í fyrra.

Kærandi er einn eigenda veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverður Ísafjarðardjúpi og taldi hann sig eiga hagsmuna að gæta. Var því borið við að lífríki ánna og villtum laxa- og silungsstofnum yrði stefnt í hættu með eldinu með mengun, lúsafári og sjúkdómum. Þá var það sjónarmið kæranda að hin leyfðu eldisáform hefðu ekki farið í mat á umhverfisáhrifum heldur væri byggt á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2014, sem þá komst að þeirri niðurstöðu að áformað eldi þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Kærandi sagði það vera andstætt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Kærendur voru fleiri en Atli Árdal Ólafsson en kærum þeirra var vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. Það voru Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Laxár á Ásum, Akurholt ehf og Geiteyri ehf sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að kæruréttur umhverfis- og hagsmunasamtaka sé bundinn við ákvarðanir sem veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat. Þar sem Skipulasstofnun komst að þeirri niðurstöðu að umrætt eldi regnbogasilungs þyrfti ekki að fara í umhverfismat væri kæruréttur þeirra ekki til staðar. Var því kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagisins Laxinn lifi vísað frá. Varðandi veiðifélögin um Láxá á Ásum og félögin um Haffjarðará var kæru þeirra einnig vísað frá vegna þess að þau eru fjarri eldissvæðinu og árnar falla annars vegar í Faxaflóa og hins vegar í Húnaflóa auk þess sem nefndin bendir á að regnbogasilungur veldur ekki hættu á erfðablöndun. Því eigi umrædd félög ekki lögvarða hagsmuni í málinu.

Nefndin fjallaði því efnislega einvörðungu um kæru Atla Árdal Ólafsson. Nefndin segir að rekstrarleyfið nú sé um sömu framkvæmd og lagt var fyrir Skipulagsstofnun 2014 og stofnunin ákvað að ekki þyrfti að fara í umhverfismat. Hafi sú ákvörðun verð kærð þá og úrskurðarnefndin hafnað kærunni. Kærandi taldi að afgreiðsla umsóknarinnar og útgáfa rekstrarleyfisins ætti að fara eftir nýjum lagaákvæðum frá 2019, en nefndin féllst ekki á það og segir að í bráðabirgðaákvæði þeirra laga sé tekið fram að umsókn sem þessi eigi að fara eftir ákvæðum eldri laga. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að hafna kröfum kæranda.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um aðildarskort veiðifélaga og samtaka er í samræmi við aðra úrskurði nefndarinnar um sambærileg mál sem fallið hafa á síðustu tveimur árum.

DEILA