Strand Ever Green: gerir illt verra m.a. fyrir fiskeldi

Evergreen á strandstað í Súezskurði.

Strand Ever Green í Súezskurði hefur víðtæk áhrif. Í skipinu er búnaður framleiddur í Asíu til sjókvíaeldis á Íslandi, t.d. í Dýrafirði, svo sem sjókvíar og net og afhendingu seinkar vegna strandsins.

Höskuldur Steinarsson hjá Aqualine annast innflutninginn og hann segir að strandið geri erfiðleikana við innflutninginn meiri og voru þeir þó ærnir fyrir. Þetta sé eins og að strá salti í sárin. Hann bendir á að um 200 önnur skip séu föst vegna strandsins „Flutningleiðirnar eru í tómu rugli. Gámahafnirnar í Evrópu eru að fyllast af gámum með vörum í sem eru ekki innleystar. Flutningarleiðirnar innan Evrópu eru meira og minna lokaðar og gámasvæðin og vöruhúsin eru full. Það leiðir af sér að hafnirnar geta ekki tekið við skipum og að skortur er á gámum. Það gengur allt núna á hraða snigilsins.“

Kostnaður við flutningana hefur vaxið gríðarlega segir Höskuldur. Hann segir að sumir aðilar séu að skoða að færa verksmiðjur frá Asíu til Evrópu, einkum austanverðrar til þess að bregðast við ástandinu í flutningamálunum.

DEILA