Skjaldfönn: að vorið hafi frestað för

Skjaldfannarbærinn í maímánuði.

Indriði á Skjaldfönn setti inn færslu á facebókina í kvöldi og lýsti veðurfarinu í dalnum í dag og kvöld. Það er greinilega ekkert sparifataveður heldur vestfirskur óveðursstormur:

„Þá er vorið liðið hjá hér við Djúp í bili. Í gærkveldi frysti og fór að hríða,n.a. byljagandi og 7 gráðu frost í dag og kvöld, en gekk svo út í sem kallað er hér,um kl.20,00 hánorðan snjóburðarhríðarandskoti, svipaða að innræti og þegar snjóflóðin féllu í Súðavík og á Flateyri. Þegar ég fór í fjárhús, fyrri partinní dag var snjór mest í miðjan legg en áðan voru umbrot, allt að í miðja bringu og þrúgurnar verða teknar í brúk á morgun, svo fremi að gefi í hús. Það er þó kostur við ófærðina að veðurofsinn kastar manni ekki, eins og hætta er á þegar harðfenni er. En aftur að snjóflóðahættu,nú er hjarn í öllum fjallabrúnum og giljum móti suðri og engin viðloðun hjá nýja snjónum sem norðann hríðin mokar niður í skjólið og ef svo heldur áfram, eins og spáð er til næsta kvölds, er ekki á góðu von. Sem betur fer er snoðrúningi á fénu lokið og einig fósturtalningu og er frjósemi með betra móti og geldkindur svo fáar að varla dugir í útburð. Fóðureftirlitsmaður, nýr á þessum slóðum, Magnús á Hnjúki í Vatnsdal, kom og gerði engar athugasemdir.“

Færslunni lauk með vísu eins og vænta mátti:

Að vorið hafi frestað för

finnst mér vera baginn,

en það kemur eins og ör

einhvern daginn.

DEILA