Skipulagsstofnun fær á baukinn

Kvíar í Arnarfirði.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur úrskurðað í kæru Arnarlax á hendur Skipulagsstofnun um óhæfilegan drátt á því að afgreiða erindi fyrirtækisins um 4.500 tonna framleiðsluaukningu á eldislaxi í Arnarlax í Arnarfirði.

Úrskurðarorð nefndarinnar eru að lagt er fyrir Skipulagsstofnun að taka til afgreiðslu án frekari tafa fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun og frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum kæranda í Arnarfirði.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax segir „Það er í raun merkilegt að stjórnsýslan virðist ekki telja sig þurfa að fylgja lögum eða nokkrum tímamörkum. Við, þessir aumingjar sem rekum erindi okkar fyrir þessum háu herrum, fáum tæpast áheyrn. Þó að langt sé um liðið er gott til þess að vita að á Íslandi sigrar réttlæti að lokum.“

Tildrög málsins eru þau að á árinu 2016 fékk Arnarlax rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði fyrir að hámarki 10.000 tonna lífmassa. Í desember 2017 tilkynnti fyrirtækið Skipulagsstofnun um áform um að auka framleiðsluna um 4.500 tonn. Ákvörðun Skipulagstofnunar um að fyrirhuguð framleiðsluaukning gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 5. júlí 2018.

Hinn 22. maí 2019 sendi kærandi Matvælastofnun umsókn um breytingu á núgildandi rekstrarleyfi vegna fyrrnefndra áforma. Tillaga Arnarlax að matsáætlun barst Skipulagsstofnun í tölvupósti 19. júní 2019. Þann 5. júlí s.á. lagði kærandi áherslu á að Skipulagstofnunin virti frest til að taka ákvörðun um matsáætlun og að ákvörðunin lægi fyrir eigi síðar 17. júlí. Einnig var farið fram á að kallað yrði tafarlaust eftir lögbundnum umsögnum hefðu þær ekki borist stofnuninni.

Í úrskurði Úrskurðarnefndarinnar segir að Skipulagsstofnun hafi móttekið umræddan tölvupóst, en ekki svarað honum að öðru leyti á þessu stigi. Frummatsskýrsla kæranda vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar var send Skipulagsstofnun 18. júlí 2019.

Þessi tímaferill skiptir mál þar sem breytt lög um fiskeldi tók gildi 19. júlí 2019 og gilda eldri lagaákvæði um umsóknir um rekstrarleyfi ef frummatsskýrslu hefði verið skilað inn fyrir þann dag. Umsókn Arnarlax var því umsókn um breytingu á gildandi rekstrarleyfi fyrir eldissvæði sem þegar var í rekstri.  Að öðrum kosti gildi nýju lagaákvæðin sem m.a. kveða á um úthlutun hafsvæða til eldis og að Hafrannsóknarstofnun myndi ákveða skiptingu fjarða og hafsvæða í eldissvæði sem ráðherra myndi síðan úthluta.

Hinn 24. september 2019 sendi Skipulagsstofnun kæranda og fleiri rekstraraðilum í sjávarútvegi umburðarbréf er laut að breytingum á lagaumgjörð fiskeldis og Skipulagsstofnun teldi ekki forsendur til að hefja málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna sjókvíaeldis fyrr en úthlutun eldissvæða hefði farið fram og myndi því ekki taka slík erindi til málsmeðferðar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum fyrr en skipting Hafrannsóknastofnunar í eldissvæði og ákvörðun ráðherra um úthlutun svæðanna lægi fyrir.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Lýtur kæran í málinu að drætti á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslu Arnarlax vegna framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði eða eftir atvikum á matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vegna greindra áforma. Skipulagsstofnun bar að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Skipulagsstofnun hefur hvorki synjað né fallist á tillögu kæranda um matsáætlun með eða án athugasemda. Hefur stofnunin ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrslu hans til meðferðar.

Úrskurðarnefndin segir að ekki hafi verið heimild fyrir Skipulagsstofnun að lögum til að afgreiða mál með þeim hætti að þau myndi ekki sæta frekari meðferð af hálfu stofnunarinnar „og verður ekki annað séð en að með umburðarbréfi sínu og lagatúlkun hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín. Átti sú afgreiðsla sér enga stoð í lögum nr. 106/2000 og er aðfinnsluverð.“

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er „að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu erinda kæranda, þær tafir eigi sér ekki lagastoð og séu því ekki afsakanlegar. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu hans.“

DEILA