Óskað eftir fulltrúum í vinnuhóp um eflingu miðbæjar Ísafjarðar

Ísafjarðarbær óskar eftir áhugasömum einstaklingum til að taka sæti í vinnuhóp sem mun koma að hugmyndarvinnu um hvernig er hægt að efla miðbæ Ísafjarðar og tengja hann betur við hafnarsvæðið.

Vinnuhópurinn er hluti af verkefninu Nýsköpunarbærinn Ísafjörður sem unnið er í samstarfi við Vestfjarðastofu og lýtur að því að efla Ísafjörð sem nýsköpunarbæ og ýta undir og efla hugarfar nýsköpunar á svæðinu.

Eitt af því sem einkennt hefur Ísafjörð er öflugur miðbær þar sem aðstaða er frábær til mannfögnuða og mannlíf er oft fjörugt, sérstaklega á sumrin þegar skemmtiferðaskip eru á svæðinu.

Verslun hefur þó dregist gríðarlega saman og ekki er líklegt að þeirri þróun verði snúið við. Horfa þarf til þess með hvaða öðrum hætti en með verslun væri hægt er að efla miðbæinn.

Nýsköpunarbærinn Ísafjörður hefur það að markmiði að tengja miðbæinn og hafnarsvæði Ísafjarðar saman í gegnum vinnu á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Nú þegar er byrjað að vinna að hugmynd um stækkun á hafnarsvæðinu á Ísafirði, en þar hafa nokkur öflug fyrirtæki sótt um lóðir og fyrirsjáanlegt er að svæðið verði í framtíðinni vettvangur öflugrar atvinnustarfsemi og mannlífs. Líklegt er að á næstu árum byggist upp meiri þjónusta við þá sem þar starfa og mikilvægt er að tengja vel saman hafnarsvæðið og miðbæinn þannig að ein heild skapist.

Stýrihópur verkefnisins hefur þegar tekið til starfa, en hann er skipaður bæjarfulltrúunum Hafdísi Gunnarsdóttur og Þóri Guðmundssyni og Birgi Gunnarssyni, bæjarstjóra. Þá sitja fundina starfsmenn Vestfjarðastofu og skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar.