Langir laugardagar á Flateyri

Flateyri

Alla laugardaga í vetur, frá 1. janúar – 1. maí verður líf og fjör á Flateyri og í Önundarfirðinum öllum. Öll helsta þjónusta verður opin auk þess sem boðið verður upp á dagsferðir um vetrarríki Önundarfjarðar og gönguskíðabrautir verða troðnar víðsvegar um fjörðinn. Það fer þó allt eftir veðri og færð og einnig gæti dagskrá riðlast vegna sóttvarnareglna.

Önundarfjörðurinn hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Fjörðurinn er fallegur á sumrin en algjör paradís á veturnar þar sem mætast snjór, fjöll, sandfjörur og sægrænn sjór. Þá er Önundarfjörðurinn eitt helsta fjallaskíðasvæði Vestfjarða og norðurljósasýn í firðinum er einstök.

Á Flateyri er boðið upp á margvíslega þjónustu og veitingar ásamt einstökum gistimöguleikum. Allt sem nærir sál og líkama, hvort sem það er í dagsferð fyrir fjölskylduna, helgarferð hjá vinahópnum og allt þar á milli.

Bækur seldar eftir vigt í Gömlu bókabúðinni, gómsætir hamborgarar, vængir og samlokur á Gunnu kaffi og troðin gönguskíðabraut í Breiðadal og á Holtsengjum. Upplagt að fá sér heitt kaffi, kakó og kökur á Kaffi Sól eftir útiveruna. Svo er sundlaugin á sínum stað og Vagninn vinalegasti skemmtistaður landsins opinn alla laugardaga eins og sóttvarnarreglur leyfa.

DEILA