Landvernd, að gefnu tilefni

Teitur Björn Einarsson, lögfræðingur og varþingmaður í Norðvesturkjördæmi, gerir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands að umræðuefni í grein sem birtist nýlega hér í BB. Tilefnið virðist vera að Landvernd var nýlega veittur liðlega 14 m.kr. styrkur úr ríkissjóði til reksturs samtakanna.

Lögfræðingurinn er því miður fastur í fortíðinni í grein sinni. Hann grautar saman fjárhag Landverndar 2019 og styrk sem Landvernd fær árið 2021 og reiknar út frá þeim stærðir sem hann telur tortryggilegar. Engin leynd hvílir yfir þessum málum og því eru hæg heimatökin fyrir lögfræðinginn að leiðrétt sinn villandi málflutning, hafi hann hug á að upplýsa málið. Vel að merkja, umræddur styrkur er um 10 prósent af áætluðum heildartekjum Landverndar á árinu 2021. 

Landvernd hefur um langt árabil notið stuðnings til starfsemi sinnar úr ríkissjóði. Sá styrkur er mikilvægur en þó ekki forsenda starfseminnar. Tæplega 6.000 félagar Landverndar sjá félaginu að miklu leyti fyrir því fé sem samtökin nýta til að sinna vernd íslenskrar náttúru og umhverfis. Samtökin þurfa því ekki að hlífa nokkrum við gagnrýni og kærum, telji þau einstaka aðila eiga þær skildar vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis. Samtökin leggja metnað sinn í að rökstyðja sína gagnrýni, að halda málflutningi hófstilltum og fara að öllum lögum og reglum.

Starfið í Landvernd er margþætt og umfangsmikið, samtökin margfalt fjölmennari en önnur sambærileg samtök og því er ekki óeðlilegt að hlutdeild Landverndar í opinberum styrkjum séu hlutfallslega mikil, eins og lögfræðingurinn bendir réttilega á.

Ein til tvær kærur á ári

Lögmaðurinn kallar í hálfkæringi Landvernd „kærusamtök“. Það er rétt að Landvernd nýtir allar lögformlegar réttar leiðir til að stuðla að verndun íslenskrar náttúru og kærur eru þar með taldar. Árlega hafa samtökin afskipti að yfir 60 málum er varða umhverfisvernd og af þeim málum enda að jafnaði eitt til tvö með kæru. Kæruferli er krefjandi og kostnaðarsamt og því er sú leið aðeins farin ef mikið liggur við að mati samtakanna.

Fjármunir skattgreiðenda

Lögmaðurinn gefur til kynna að hann hafi áhyggjur af meðferð fjármuna skattgreiðenda og talar um 14 m.kr. sem „háa fjárveitingu“ til Landverndar. Setjum þann styrk í samhengi við kísilverið á Bakka. Fjölmargir urðu til að vara við þeim áformum öllum og Landvernd lét reyna á allar leyfisveitingar sem lög heimila til að stöðva þá vegferð. Það með er talin kæruleiðin, sem lögfræðingurinn kallar „ofsafengnar aðgerðir“ gegn atvinnuuppbyggingu í grein sinni. Tapið af Bakka er mikið á alla mælikvarða. Í fyrsta lagi hafa lánastofnanir og lífeyrissjóðir í eigu almennings afskrifað á annan tug milljarða króna. Í öðru lagi greiddi ríkissjóður, samkvæmt sérstökum samningi, alls 4,2 milljarða króna í einkajarðgöng fyrir kísilverið, lóðaframkvæmdir og starfsþjálfun fyrir starfsfólk kísilversins. Sem sagt eitt allsherjar tjón fyrir fólkið í landinu – sem Landvernd reyndi að koma í veg fyrir. Mörg önnur dæmi má finna um í svokallað „ívilnunarsamningum“ við meinta atvinnuuppbyggingu þar sem umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið eru léttvæg fundin. Þeir sem hafa áhyggjur af meðferð á skattfé landsmanna mættu að hafa þetta oftar í huga og skoða í samhengi við fjárveitingar til samtaka almennings sem vinna að verndun íslenskrar náttúru.

Kæra er málsmeðferð

Í grein sinni gerir lögfræðingurinn athugasemd við það ferli þegar kæra þarf leyfisveitingar sem „hið opinbera hefur afgreitt“. Þarna gætir annað hvort misskilnings eða þekkingarleysis á lögum. Lög heimila ekki kæru fyrr en tiltekin leyfi hafa verið gefin út. Það er ekki fyrr en kærufrestur við útgefin leyfi er liðinn og eftir atvikum úrskurðarnefndir hafa fjallað um innsendar kærur, að hægt er að tala um að hið opinbera hafi „afgreitt“ leyfisveitinguna. Þetta veit forsvarsfólk allra framkvæmdaraðila sem þurfa á slíkum leyfum að halda, og er það á þeirra ábyrgð ef ákveðið er að hefja framkvæmdir áður en þessu ferli er lokið. Þá er rétt að halda því til haga að kærur frá Landvernd koma eingöngu fram þegar rökstuddur grunur leikur á að viðkomandi framkvæmd feli í sér brot á lögum.

Afhendingaröryggi og jarðstrengir

Enginn skortur er á rafmagni á Íslandi. Þvert á móti er umframframleiðsla á rafmagni. Hið opinbera hefur hins vegar látið hjá líða að tengja byggðarlög á Vestfjörðum raforkukerfi landsins með viðunandi hætti. Landvernd hefur ítrekað bent á að mikilvægast sé að tryggja afhendingaröryggi fyrir almenna notkun raforku, því það er ein megin undirstaða velsældar í landinu. Samtökin hafa einnig lagt áherslu á að nota jarðstrengi þar sem það er mögulegt, því jarðstrengir draga ekki aðeins úr neikvæðum sjónrænum áhrifum heldur auka þeir einmitt afhendingaröryggi, sérstaklega þar sem veður eru válynd. Ólíkt loftlínum hefur ísing engin áhrif á jarðstrengi, en ísing á flutningslínum er meginorsök þess þegar rafmagnið slær út fyrir vestan. Um þetta atriði eru Landvernd og lögfræðingurinn líklega sammála.

Vegagerð og vilji íbúa

Við skulum líka skoða annað dæmi úr kjördæmi varaþingmannsins – hinar umdeildu áætlanir um vegagerð um Teigskóg. Reykhólahreppur lét gera sjálfstæða úttekt á veglagningu í sveitarfélaginu og niðurstaðan var að farsælasta leiðin var talin liggja um þéttbýlið Reykhóla, meðal annars vegna þess að þannig væri hægt að styrkja byggðina. Landvernd taldi að með þeirri leið sem íbúar lögðu til yrðu samgöngubætur góðar, Teigsskógi yrði hlíft og að betur yrði gætt að ákvæðum náttúruverndarlaga. Því miður varð sú leið ekki fyrir valinu, sem voru mikil vonbrigði fyrir heimafólk. Þess má geta að Landvernd beitti sér tímanlega fyrir jarðgangnaleið og lagði fram á árinu 2007 vel rökstuddar tillögur þess efnis. Jarðgöng hefðu verið langbesti kosturinn fyrir alla aðila og kynslóðir framtíðarinnar. Hefði verið farið að þeim tillögum væru vegasamgöngur í betra standi í dag en raun er á.

Farið verði að lögum

Það er skýr krafa Landverndar að farið sé að íslenskum lögum eins og náttúruverndarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum, alþjóðlegum samningum eins og EES-samningnum og Árósasáttmálanum og að við faglega ákvarðanatöku í málefnum sem varða almannahag eins og umhverfismálum séu alltaf notuð bestu fáanlegu gögn sem raunhæft er að afla. Í einmitt þetta nýtir Landvernd fjármuni frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og hægt er að kynna sér afraksturinn á heimasíðu Landverndar. Þar er einnig að finna upplýsingar um fjárhag Landverndar.

Tryggvi Felixsson,

formaður Landverndar

DEILA