Ísafjarðarbær: bæjarráð vill byggja líka á Suðureyri

Bæjarráð vill líka verði byggt á Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum í gær um umsókn Bæjartúns hses. um stofnframlög vegna byggingar almennra íbúða í Ísafjarðarbæ, á Flateyri og á Þingeyri. Bókað er að bæjarráðið taki jákvætt í fyrirspurn félagsins varðandi byggingu á Þingeyri, „en óskar eftir viðræðum varðandi möguleg byggingaráform á Suðureyri í stað Flateyrar.“

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri var inntur eftir skýringum á þessari bókun. Hann svaraði því til að um villandi bókun væri að ræða. Hann sagðist hafa átt fund með Bæjartúni í gær en þeir hafa heimild HMS til að byggja 10 íbúðir í sveitarfélaginu.

„Niðurstaðan var að þessar íbúðir yrðu byggðar á Þingeyri, Suðureyri og Flateyri og gert ráð fyrir 4-5 íbúða raðhúsalengju á hverjum stað.“

Samkvæmt þessu er ætlunin að byggja 12-15 íbúðir í þorpunum þremur. Fyrir liggur að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er tilbúin að leggja fram 18% af byggingarkostnaði fyrir 10 íbúðir. Áætlaður heildarkostnaður er 307.667.211 kr. Hlutur sveitafélags yrði 12% af kostnaðinum eða 36.920.065 kr.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar er lagt til að byggja á Þingeyri og á Flateyri. Í umsókn Bæjartúns er sótt um til þess að byggja þessar 10 íbúðir á Flateyri.

DEILA