Holtskirkja í Önundarfirði

Holtskirkja í Önundarfirði.

Prestsetrið Holt hefur um aldaraðir verið eitt mesta höfuðból í Önundarfirði. Bæjarstæðið er fagurt og útsýni gott.

Áður var Holtsprestakall talið með bestu brauðum landsins og sóttu klerkar hart að komast þangað. Vegna hlunnindanna vildi heldur enginn prestur flytja þaðan, eða svo var þar til séra Þorvaldur Böðvarsson flutti þaðan um 1820. Er hann var spurður hvers vegna hann vildi flytja, svaraði hann því til að það væri vegna ofsælu!

Núverandi kirkja var byggð árið 1869 og er hún timburkirkja. Árið 1937 fór fram gagnger viðgerð á henni og var þá meðal annars steypt utan um hana alla.

Fyrir 100 ára afmæli hennar, árið 1969, voru gerðar á henni miklar endurbætur og meðal annars byggð við hana forkirkja úr timbri. Kirkjan á marga ágæta gripi, til dæmis tvo mikla og volduga koparstjaka er séra Sveinn Símonarson, faðir Brynjólfs biskups Sveinssonar, gaf. Þeir bera áletrunina „Sera Sveinn Simonsson Anno salutis 1604“. Kirkjan á tvo gamla ljósahjálma og klukkur. Altaristafla er máluð eftirmynd á striga eftir frummynd Carls Blochs

Af vefnum kirkjukort.net

DEILA