Haraldur og Þórdís Kolbrún vilja bæði oddvitasæti Sjálfstæðismanna

Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir eru núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir 2. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og varaformaður flokksins tilkynnti það á bæjarmálafundi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi á laugardaginn að hún ætlaði að sækjast eftir fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar.

Áður hafði Haraldur Benediktsson oddviti flokksins og fyrsti þingmaður kjördæmisins tilkynnt að hann muni áfram gefa kost á sér til að leiða listann. Þá hefur varaþingmaðurinn Teitur Björn Einarsson tilkynnt að hann sækist eftir „þingsæti,“ eins og hann orðar það. Það er því ljóst að nú stefnir í átök um forystuna.

Ákvörðun um með hvaða hætti skipað verður á lista fyrir komandi kosningar hefur ekki verið tekin. Til greina koma þrjár aðferðir. Í fyrsta lagi opið prófkjör meðal flokksmanna, í öðru lagi að tvöfalt kjördæmaþing kjósi framboðslista og loks sú aðferð að kjörnefnd leggi fram tillögu að framboðslista sem kosið verður um.

Í frétt Skessuhorns kemur fram að í kjölfar tilkynningar Þórdísar Kolbrúnar síðastliðinn laugardag hafi Halldór Jónsson formaður kjördæmisráðs tilkynnt afsögn sína úr því starfi.

Í samtali við Skessuhorn kveðst Halldór hafa verið einarður stuðningsmaður bæði Haraldar og Þórdísar Kolbrúnar, en honum hugnist ekki að standa í stafni sem formaður kjördæmisráðs og þurfa að horfa uppá baráttu þeirra á milli sem geri lítið annað en veikja stöðu þeirra beggja.

„Mér mistókst einfaldlega það ætlunarverk mitt að stuðla að uppstillingu listans á sem sigurstranglegastan hátt að mínu mati,“ segir Halldór.

Hann telur farsælast fyrir flokkinn að óbreytt röð efstu tveggja sæta verði á framboðslistanum. „Ég lít á það sem eitt helsta hlutverk formanns kjördæmisráðs að meta stöðu flokksins hverju sinni með heildarhagsmuni hans, kjördæmisins og íbúa þess hverju sinni, í huga. Það hlutverk er sérstaklega nauðsynlegt að rækta í aðdraganda kosninga. Það hef ég gert undanfarna mánuði með viðtölum við flokksmenn vítt og breitt. Niðurstaða mín eftir þá vinnu er mjög skýr. Það þjónar best öllum áðurnefndum hagsmunum að skipan efstu tveggja sæta listans verði óbreytt,“ skrifaði Halldór í bréfi til forystu flokksins.

Halldór skrifaði jafnframt: „Það að varaformaður flokksins skori leiðtoga flokksins í kjördæminu á hólm verður að eiga sér ríkar málefnalegar ástæður að mínu mati. Í máli varaformannsins í gær [laugardag, innsk. blm] komu þær málefnalegu ástæður ekki fram. Þvert á móti lýsti hún afar vel styrk og góðum störfum Haraldar sem fyrsta þingmanns kjördæmisins. Það er rétt metið hjá varaformanninum því þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður sjá íbúar kjördæmisins mörg erfið mál þokast áfram eftir kyrrstöðu. Það er ekki síst elju og vinnusemi Haraldar að þakka,“ skrifaði Halldór.

DEILA