Guðmundur Gunnarsson efstur hjá Viðreisn

Guðmundur Gunnarsson, fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar mun leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

„Ég ber sterkar taugar til heimahaganna og vil vinna að því að rétta hlut svæðisins. Þess vegna ákvað ég að bjóða mig fram,“ segir Guðmundur þegar hann var spurður að því af hverju hann vill komast á þing. „Það býr kraftur í Norðvesturkjördæmi og þann kraft þarf að leysa úr læðingi með breyttum áherslum og ferskum vindum. Þar sem leiðarstefið er að almannahagsmunir trompi sérhagsmuni.“

En hver eru helstu baráttumálin í Norðvesturkjördæmi? „Til að fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu fái að vaxa og dafna þarf að efla heilbrigðisþjónustu, samgöngur, nýsköpun og menntun á svæðinu. Íbúar Norðvesturkjördæmis eiga rétt á sömu grunnþjónustu og aðrir, óháð búsetu. Það er stóra réttlætismálið sem ég mun beita mér fyrir. Viðreisn er flokkur jafnréttis og skynsamlegra kerfisbreytinga í sátt við samfélag og náttúru.  Sú framtíð raungerist í stefnu Viðreisnar og að þeirri framtíðarsýn vil ég stefna.“