Flateyri: innsiglingin í höfnina þarfnast athugunar

Fram kemur í minnisblaði Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra til hafnarstjórnar að borið hafi á því í nokkur skipti að togskipið Tindur hefur tekið niðri í innsiglingunni í Flateyrarhöfn. Hefur það valdið því að skipið hefur þurft að fara í slipp með biluð botnstykki. Hann segir ekki hægt að útiloka að bilunin í botnstykki verði rakið til þess.

Botninn var hreinsaður í kjölfar snjóflóðsins sem féll í höfnina 14 jan. 2020 en Guðmundur telur hugsanlegt er að við það að snjóflóð féll í höfnina á Flateyri hafi það raskað dýpi í höfninni og jafnvel rutt upp hrygg sem hefur síðan valdið því að bátar eru að taka niðri.

Hafnarstjóri telur nauðsynlegt að fara í mælingu á innsiglingunni að hafnarkanti og í framhaldinu að framkvæma
dýpkun til samræmis við gildandi kort. Kostnaður gæti verið 2 – 3 m.kr.

Hafnarstjórn samþykkti að láta kanna botnlag hafnarinnar á Flateyri.

DEILA