Fjölnota knattspyrnuhús Ísafirði: tilboð 53% yfir kostnaðaráætlun

Tilboð Hugaas Baltic í fjölnota knattspyrnuhús á Ísafirði hljóðaði uppá 4.856.969 evrur eða um 727.573.956 kr.
Kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 3.176.472 evrur 475.835.505 kr.. Tilboðið er því um 53% hærra en kostnaðaráætlun.

Málið var rætt í bæjarráði Ísafjarðarbæjar í gær. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs lagði til við bæjarráð að óskað verði staðfestingar Hugaas Baltic á því að þeir uppfylli allar tilskyldar hæfiskröfur. Ef Hugaas uppfyllir hæfiskröfurnar þá getur Ísafjarðarbær tekið afstöðu til tilboðsins.
„Að því gefnu að Hugaas standist hæfiskröfur eru tveir möguleikar í stöðunni annarsvegar að taka innkomnu tilboði, eða hafna og hefja Samkeppnisútboð eða Samkeppnisviðræður. Ef í ljós kemur að Hugaas uppfyllir ekki hæfiskröfur útboðsins þá er heimilt að hafna tilboði og Ísafjarðarbæ heimilt að fara í samningskaup á grundvelli 39. gr. laga um opinber innkaup“ segir í minniblaði sviðsstjórans.

Bæjarráðið tók ekki að svo stöddu afstöðu til tillögu sviðsstjórans og er málið til áframhaldandi umfjöllunar.

DEILA