Fiskeldi: meirihluti hlutafjár í ÍS 47 ehf seldur til ÍSEF

ÍV SIF Equity Farming ehf. (ÍSEF), sem er eignarhaldsfélag í eigu hóps íslenskra fjárfesta sem hefur að meginmarkmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi, hefur eignast meirihluta í fiskeldisfyrirtækinu ÍS 47 ehf. á Flateyri við Önundarfjörð. Íslensk verðbréf halda utan um rekstur ÍSEF og leggur því til sérhæfða þekkingu á fjárfestingum og rekstri.

ÍS 47 ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem verið hefur í eigu hjónanna Gísla Jóns Kristjánssonar og Friðgerðar Ómarsdóttur frá árinu 2003. Félagið fékk leyfi til eldis á regnbogasilungi í Önundarfirði árið 2013 og setti þá út 19.000 seiði. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Í janúar á þessu ári fékk félagið aukin leyfi fyrir rekstri og framleiðslu og hefur nú leyfi fyrir allt að 1.000 tonna framleiðslu af regnbogasilungi á ári.

í fréttatilkynningu frá íslenskum verðbréfum kemur fram að núverandi eigendur telja mikil tækifæri felast í fiskeldi á Vestfjörðum og hafa mikla trú á áframhaldandi uppbyggingu ÍS 47. „Félagið ber með sér mikla möguleika til að stækka og dafna líkt og gerst hefur verið hjá öðrum eldisfélögum á bæði Vestfjörðum og Austfjörðum. Nýir eigendur hafa lagt félaginu til aukið hlutafé til frekari uppbyggingar og ætla má að rekstur félagsins geti til framtíðar stutt duglega við atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og þá sérstaklega á Flateyri. Félagið hefur þegar tryggt sér seiði til útsetningar í vor og munu fjárfestingar í frekari búnaði og mannaráðningar fylgja í kjölfarið. Þá telja eigendur tækifæri í mögulegu samstarfi eða sameiningum við önnur félög sem stunda fiskeldi á norðanverðum Vestfjörðum.“

Gísli Jón, einn af stofnendum félagsins, segist fagna mjög nýjum meðeigendum og að aðkoma þeirra muni gera félaginu það kleift að taka út frekari vöxt til framtíðar, svæðinu og samfélaginu á Flateyri til heilla.

Ráðgjafar seljanda við söluna voru Mar Advisors og Lögfræðistofa Reykjavíkur en fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra verðbréfa var kaupanda til ráðgjafar við kaupin.