Djúpið: Háafell nálgast rekstrarleyfi fyrir laxeldi

Matvælastofnun hefur kynnt tillögu að rekstrarleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis á laxi og ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Tillagan er byggð á matsskýrslu frá 2020 um eldi á 6.800 tonnum af laxi í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða rekstrarleyfi Háafells ehf. sem heimila hámarkslífmassa fyrir samtals 6.800 tonn af laxi og ófrjóum laxi á hverjum tíma.

Skipulagsstofnun gaf út álit sitt seint í desember 2020 á matsskýrslu um umhverfisáhrif. Þegar það liggur fyrir taka Matvælastofnun og Umhverfisstofnun við því að afgreiða umsóknir um laxeldi.

Tillaga Matvælastofnunar er í kynningu til 6. apríl og verður þá tillagan endanlega afgreidd að teknu tilliti til framkominna athugasemda. Svo það má búast við að leyfið verði gefið út í apríl eða maí. Ætla má að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi á sama tíma.

Miðað við þennan tímaferil má búast við því að leyfi til annarra eldisfyrirtækja sem sótt hafa um leyfi til eldis í Djúpinu, Arctic Fish og Arnarlax verði gefin út í einum til tveimur mánuðum síðar og verði þá komin seint í maí – júní. Gangi það efti er ekki útilokað að eldið hefjist í sumar eins og að hefur verið stefnt.