Blámi fær 90 m.kr. næstu þrjú árin

Klakabrynjað mastur á vestfirskum fjöllum. Mynd: Helgi Þorvaldsson.

Verkefnið Blámi á Vestfjörðum hófst um áramótin. Það er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu sem hafa tryggt fjármagn til þess næstu 3 árin.

Meginverkefnið er að vinna að orkuskiptum á Vestfjörðum og bæta innviði.

Með orkuskiptum er átt við að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Markmiðið er að ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum. Þetta er þriðja svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun hefur komið á fót að undanförnu ásamt samstarfsaðilum, en fyrir eru EIMUR á Norðurlandi og Orkídea á Suðurlandi.

Búið er að ráða framkvæmdastjóra fyrir Bláma og unnið er að ráðningu á rannsókna- og þróunarstjóra.

Þorsteinn Másson var ráðinn framkvæmdastjóri. Haraldur Hallgrímsson er stjórnarformaður Bláma og hann segir að Þorsteinn hafi verið ráðum úr hópi margra frambærilegra umsækjanda en að launakjör hans séu trúnaðarmál. Varðandi rannsókna- og þróunarstjóra segir Haraldur að ráðningaferli standi yfir en hann vill ekki gefa upp hversu margar umsóknir bárust í starfið.

Landsvirkjun leggur 15 m.kr. á ári til verkefnisins, Orkubú Vestfjarða setur 7,5 m.kr. og Vestfjarðastofa aðrar 7,5 m.kr. Samtals hefur Blámi tryggðar 30 m.kr. á ári næstu þrjú árin.

Í stjórn Bláma eru Haraldur Hallgrímsson, formaður, Hafdís Gunnarsdóttir og Elías Jónatansson.

DEILA