Vestfirðir: 6,3 milljarða króna velta á fasteignamarkaði

Veltan á fasteignamarkanðum á Vestfjörðum á síðasta ári var 6,3 milljarðar króna og 238 fasteignir voru seldar. Langstærsti hlutinn var vegna viðskipta með íbúðarhúsnæði. Alls voru 206 eignir seldar fyrir tæplega 5,5 milljarð króna. Eitthundrað og sextán eignir í sérbýli seldust fyrir 3.670 milljónir króna. Meðalverð á fasteign var 31,6 milljón króna. Í fjölbýli voru 90 eignir seldar og var samanlagt söluverðmæti þeirra 1.811 milljónir króna. Meðalverðið í fjölbýlinu var 20,1 milljón króna.

Mest sala síðustu mánuði ársins

Tæplega 60% af árssölunni var síðustu fjóra mánuði ársins. Þá mánuði seldust fasteignir fyrir 3,7 milljarða króna. Tvo mánuði, september og desember fór heildarsalan yfir einn milljarð króna í hvorum mánuði. Meðalverð á sérbýli í þeim mánuðum var um 42 milljónir króna eða þriðjungi hærra en ársmeðaltalið. Íbúðarhúsnæði í fjölbýli seldist fyrir 25 milljónir króna að meðaltali þessa fjóra síðustu mánuði ársins. Það er fjórðungi hærra en ársmeðaltalið.

Þessar upplýsingar koma fram í nýbirtum gögnum Þjóðskrár Íslands.