Þjónustuíbúðir aldraðra seldar fyrir fótboltahús?

Á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var kynnt hugmynd meirihluta bæjarstjórnar um að selja 26 íbúðir í eigu bæjarins á Hlíf 1. Við þá umræðu bókaði ég afstöðu Í-listans sem leggst alfarið gegn eignasölunni, og ekki síður að ágóðinn verði nýttur til að byggja fótboltahús. Hlíf 1 var að hluta byggð fyrir gjafafé frá einstaklingum og félagasamtökum og ekki ætlaðar til endursölu.  Með eignarhaldi sínu á íbúðum á Hlíf 1 getur bærinn tryggt aðgengi aldraðs fólks í brýnni þörf að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Sú trygging er úr sögunni sé húsnæðið selt til ótengds félags á markaði – hvað sem líður fyrirheitum og væntingum um annað. Staðreyndin er nefnilega sú að það eiga ekki allir aldraðir þess kost að selja skuldlaust íbúðarhús til að kaupa húsnæði til að eyða ævikvöldinu í.

Staðreyndarvillur formanns bæjarráðs

Í grein eftir Daníel Jakobsson formann bæjarráðs sem birtist á bb.is 9. febrúar s.l. eru nokkrar staðreyndarvillur. Fyrir það fyrsta þarf að greina á milli þjónustuíbúðanna á Hlíf og Fasteigna Ísafjarðarbæjar (Fastís).

Daníel segir  „Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert sveitarfélag á eins margar íbúðir á höfðatölu. Eða um eina íbúð á hverja 30 íbúa. Það verður að teljast ríflegt. Með þessum íbúðum höfum við verið að greiða árlega allt að 100 m.kr. á ári. Á hverju ári. Það hefur gert það að verkum að síðastliðna áratugi höfum við ekki geta komið að neinum fasteigna uppbyggingarverkefnum sem neinu nemur.“

Vissulega á Ísafjarðarbær margar íbúðir en það er ekki rétt að ekkert sveitarfélag eigi eins margar íbúðir m.v. höfðatölu. Hið rétta kemur fram í skýrslu varasjóðs húsnæðismála um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Þar má sjá Skagaströnd, Blönduós, Húnaþing vestra og Vopnafjörður eiga fleiri íbúðir per höfðatölu.

Daníel fullyrðir einnig að Ísafjarðarbær borgi allt að 100 m.kr á ári með Fastís. Á síðasta ári var tæplega 25 m.kr afgangur af rekstri Fastís en ekki 100 m.kr tap eins og formaður bæjarráðs heldur fram.  Þessa staðreynd má finna í ársreikning Fastís sem sem er að finna á heimasíðu bæjarins.

Það hefur all oft verið tap á Fastís en á síðasta kjörtímabili var farið í markvissar aðgerðir, m.a. með því að hækka leiguverðið, til að gera félagið sjálfbært. Það hefur tekist. 

Skynsamlegt að minnka eignasafn Fastís

Fastís átti 100 íbúðir samkvæmt ársreikningi ársins  2019. Enginn ágreiningur er um að það sé skynsamlegt að selja hluta af því eignasafni. Sú leið að sem rædd hefur verið í stjórn Fastís, að gera núverandi leigjendum kleift að eignast íbúðirnar sem þeir búa í, er ákjósanleg og eins kemur vel til greina að selja Bríeti, leigufélagi Íbúðalánasjóðs, einhverjar eignir. Við í Í-listanum höfum talað fyrir því að nota ágóðann af slíkri sölu í að undirbúa önnur fasteignaverkefni. Þær tillögur hafa fengið dræmar undirtektir meirihlutans. Fyrirsjáanleg þörf er á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í bænum eins og húsnæðisáætlun bæjarins sýnir glögglega. Til að mæta þessari þörf þarf að undirbúa lóðir og leita samstarfs við félög á borð við Bríeti og aðra til að byggja íbúðir. Útfrá þessari húsnæðisáætlun hefur Í-listinn lagt fram tillögur í bæjarstjórn til að vinna úr þessari fyrirsjáanlegu þörf. Staðreyndin er sú að byggja þarf fleiri íbúðir, þar á meðal íbúðir með góðu aðgengi, sem hentar fötluðum og eldra fólki sérstaklega.

Það hefur ekki fengist hljómgrunnur hjá meirihlutanum að fara í slíkar framkvæmdir og hafa  tillögur Í-listans fallið í grýttan jarðveg meirihlutans sem hefur haft mun meiri áhuga á öðrum verkefnum. Hægt er að hlusta á upptökur af bæjarstjórnarfundum þar sem formaður bæjarráðs lýsir því yfir að betra sé að einkaaðilar byggi íbúðir og selji á frjálsum markaði. Nýframkomnar hugmyndir formannsins um að bæjarsjóður geti komið að uppbyggingu á nýjum íbúðum fyrir aldraða með því að selja íbúðir á Hlíf eru í besta falli hugmynd sem fæddist í gær. Ekkert í áætlunum meirihlutans styður þessar hugmyndir, hvorki fjárhagsáætlun ársins 2021 eða þriggja ára áætlun. Það kemur hins vegar kemur skýrt fram í fjárfestingaráætlun ársins 2021 að til þess að sveitarfélagið geti farið í áætlaða 1,5 milljarða framkvæmdir verði að selja fasteignir fyrir 650.000 milljónir til að losa um fjármagn.

Sporin hræða

Þessar nýfrjálsu hugmyndir um umfangsmikla eignasölu til að bæta reksturinn eru varhugaverðar. Reykjanesbær undir stjórn Sjálfstæðisflokksins seldir margar eignir til einkaaðila fyrir hrun og leigði þær svo sjálfur til baka. Það leit vel út í reiknilíkönum í skamma stund og yljaði en þegar fjárhagurinn hrundi snöggkólnaði og er sveitarfélagið enn í dag að fást við afleiðingar þess.

Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans.

DEILA