Óspakseyrarkirkja

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.

Kirkju að Óspakseyri í Bitrufirði á Ströndum er getið í kirknatali Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 og er hún samkvæmt máldögum helguð guði, Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula og guðspjallamanni, Ólafi konungi, Þorláki biskupi og heilagri Margréti mey. Kirkjan mun snemma hafa orðið annexía frá Prestbakka.

Hún virðist ekki hafa eignast jarðir, en átti lambseldi, skæðatoll, ostatoll og málsmjólk á bæjum. Einnig átti hún rekaítak og hvalreka.

Óspakseyrarsókn var lögð til Tröllatunguprestakalls með lögum 1885 og var þjónað frá Kollafjarðarnesi eftir að prestsetur varð þar. Síðar var sóknin aftur lögð til Prestbakka. Enn varð breyting á þessu árið 2004 og þá var hún lögð til Hólmavíkurprestakalls.

Kirkjan sem nú stendur á Óspakseyri var reist árið 1939 úr steinsteypu og tekur um það bil 50 manns í sæti. Eins og aðrar kirkjur á hún margt góðra gripa.

Byggingafræðilega skoðað eru gluggarnir, 3 á hvorri hlið, einkar sérstæðir, en það mun tilviljun, að þeir mynda koptíska boga, sem alkunnur er í egypskri list og helgihúsum með íslömskum þjóðum.

Altarisbúnaður kirkjunnar er góður, stjakar, dúkur og klæði allt hið vandaðasta, en kaleikur og patína gamlir og fallegir silfurgripir. Á miðju altari er vænt krosstákn, en yfir litfögur altaristafla, málverk Jóhanns Briems og sýnir atburð pálmasunnudagsins.

DEILA