Orkuveita Reykjavíkur vinnur gegn tvöföldun Vesturlínu

Í lok september á síðasta ári var þeirri spurningu varpað fram í fréttaskýringu hér á vef Bæjarins besta hvort Orkuveita Reykjavíkur ynni gegn tvöföldun Vesturlínu, sem flytur rafmagn til Vestfjarða.

Raforkuframleiðsla á Vestfjörðum annar aðeins litlum hluta eftirspurnarinnar og hefur stór hluti raforkunnar verið framleiddur annars staðar og verið fluttur til Vestfjarða eftir svonefndri Vesturlínu.

Sú lína er komin mjög til ára sinna og er bilanagjörn. Fyrir vikið er raforkuöryggi á Vestfjörðum það lakasta á landinu.

Síðustu ár hafa Vestfirðingar séð vænlegustu lausnina í aukinni raforkuframleiðslu á Vestfjörðum, og má þar minna á Hvalárvirkjun. Undirbúningur að þeirri virkjun er kominn langt, en á síðasta ári var málið sett í bið um óákveðinn tíma.

Það veldur því að umbætur á flutningskerfinu verða aðalmálið fyrir Vestfirðinga, bæði til að bæta öryggið og til þess að hafa raforku til reiðu fyrir nýja notendur svo sem kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.

Það er hlutverk Landsnets að byggja upp flutningskerfið um landið þannig að raforkudreifing verði örugg og geri mögulegt að nýta þá kosti á landinu sem fyrir hendi eru á hverjum tíma til atvinnuuppbyggingar með raforkunýtingu. Landsnet er nær eingöngu í eigu opinberra aðila, ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Kostnaður við uppbyggingu flutningskerfisins um landið er lagður á notendur eða raforkukaupendur. Það þýðir að orkusölufyrirtæki eins og t.d. Orkuveita Reykjavíkur þarf að greiða ákveðið gjald af seldri raforku sem notað er til þess að greiða kostnaðinn.

Í umfjölluninni í haust var bent á andstöðu Orkuveitu Reykjavíkur við 10 ára áætlun Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins.

Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur við þessa 10 ára áætlun Landsnets, sagði Bjarni Bjarnason forstjóri fyrirtækisins að fjárfestingarnar myndu hækka flutningskostnað á raforku og hækka yrði gjaldið sem viðskiptavinir Landsnets myndu þurfa að greiða. Það muni hafa áhrif á Orkuveitu Reykjavíkur sem framleiðir mikla raforku og selur til stóriðju og muni koma niður á afkomu Orkuveitunnar.

Tvöföldun Vesturlínu er ekki inn í umræddir 10 ára áætlun, enda þá miðað við að Hvalárvirkjun rísi og við það breytist til hins betra bæði framboð á raforku á Vestfjörðum og afhendingaröryggið.

Bjarni Bjarnason var þá inntur eftir afstöðu Orkuveitunnar til tvöföldunar Vesturlínu til Vestfjarða. Hann  sagði að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur snúi ekki að einstökum framkvæmdum svo hann gæti ekki  tjáð sig um tvöföldun Vesturlínu. „Ég veit að rafmagnsöryggi er verulega ábótavant á Vestfjörðum og hef reyndar bent á það sjálfur við ýmis tækfæri“ og sagðist telja að Landsnet eigi að einbeita sér að því að tryggja örugga afhendingu rafmagns til almennings í landinu.

Eftir stendur skýr afstaða Orkuveitu Reykjavíkur að leggjast gegn úrbótum á flutningskerfinu um landið vegna þess að kostnaðurinn lendir að hluta til á Orkuveitunni.

Flutningsgjald innifalið í verðinu

Nú er komin skýring á þessari afstöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Í síðasta mánuði var aflétt leynd á samningu Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurál frá 2008. Þar kemur fram að Orkuveitan samdi um lágt verð fyrir raforkuna sem framleidd er í jarðhitavirkjuninni á Hellisheiði og þar að auki var samið um að flutningskostnaðurinn væri innifalinn í verðinu.

Í frétt á vefsíðu Orkuveitu Reykjavíkur 27. janúar 2021 segir :

Um þennan tiltekna samning segir Bjarni að hann sé barn síns tíma. „Það hefur reynst OR óhagstætt hvernig álverð hefur þróast. Einnig er flutningsgjald innifalið í samningsverðinu við Norðurál þannig að OR hefur borið alla áhættu af þróun flutningskostnaðar. Svona samningur yrði ekki gerður í dag,“ segir Bjarni.

Ennfremur segir á vef Orkuveitu Reykjavíkur:

„Þetta verð er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu sem eigendur OR gera,“ segir Bjarni.

Samningurinn, sem nú er almenningi aðgengilegur, er um sölu á 47,5 megavöttum rafmagns. Það eru um 18% af rafmagnssölu OR til Norðuráls og um 11% af rafmagnsvinnslu OR. Aðrir rafmagnssölusamningar OR við Norðurál eru sameiginlegir með HS Orku, sem ekki hefur samþykkt að aflétta trúnaði.

Furðusamningur Orkuveitunnar

Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum skrifar um samninginn á vefsíðunni Kjarninn. Ketill kallar samninginn furðusamning. Vísar Ketill m.a. til bók­unar þáver­andi meiri­hluta stjórnar OR frá árinu 2008 um að samn­ing­ur­inn væri „mjög hag­stæður [!] fyrir Orku­veitu Reykja­vík­ur“. 

Þarna er því him­inn og haf milli afstöðu núver­andi for­sjóra OR ann­ars vegar og meiri­hluta stjórnar fyr­ir­tæk­is­ins þegar samn­ing­ur­inn var gerður hins veg­ar, eins og Ketill bendir rækilega á.

Við­un­andi arð­semi OR af orku­sölu til stór­iðj­unnar er því ekki í hendi.

Ketill Sigurjónsson birtir á Kjarnanum þessa mynd sem sýnir raforkuverð Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls og ber það saman við raforkuverðið á Íslandi og fjórum öðrum löndum. Flutningskostnaður er innifalinn í samanburðinum. Eins og sjá má er verðið lægst til Norðuráls, umtalsvert lægra en meðalverðið til álvera á landinu og miklu lægra en er í Noregi, Þýskalandi og Kína.

Mistök Orkuveitunnar bitna á raforkukerfinu

Af þessu er ljóst að stórfelld mistök Orkuveitu Reyjavíkur frá 2008 verða til þess að fyrirtækið með Reykjavíkurborg í fararbroddi berst um á hæl og hnakka gegn nauðsynlegri uppbyggingu raforkuflutningskerfisins um landið. Því Orkuveitan vill komast hjá því að þurfa greiða sinn hluta af kostnaðinum. Síðasti áratugur hefur einmitt einkennst af algerri kyrrstöðu í þeim efnum. Það hefur svo valdið verulegum vandkvæðum t.d. í Eyjafirði þar sem ekki hefur verið hægt að flytja þangað raforku sem kallað hefur verið á með tilheyrandi töf og stöðvun á atvinnuuppbyggingu.

Verði þessi afstaða Reykjavíkurborgar áfram ofan á verður ekki þess að vænta að Landsneti verði falið að auka raforkuöryggi Vestfirðinga með tvöföldun Vesturlínu nema með því að ríkið taki að sér að greiða kostnaðinn beint úr ríkissjóði og sleppi Orkuveitunni við að taka þátt í kostnaðinum eins og lög gera ráð fyrir að verði gert.

Þetta er mjög eigingjörn afstaða stjórnenda höfuðborgarinnar, því eins og Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunarsviðs Vestfjarðastofu hefur bent á þá hefur höfuðborgarsvæðið með uppbyggingu stóriðju á síðustu 50 árum, fengið þrefalda tengingar frá Suðurlandi og Vesturlandi auk eigin orkuframleiðslu og þarf ekki að hafa áhyggjur af flutningi raforku.

Furðusamningur Orkuveitu Reykjavíkur hefur haft mikil og vond áhrif á uppbyggingu á landsbyggðinni. Mál er að því linni. Reykjavíkurborg er hluti af landinu og verður að taka þátt í uppbyggingu raforkukerfisins um landið rétt eins og allir aðrir, við erum í þessu saman ekki satt?

-k

DEILA