Orð ársins 2020 eru sóttkví og þríeykið

Hjá Stofnun Árna Magnússonar er orðið sóttkví orð ársins.

Orðið sóttkví merkir einangrun til að afstýra útbreiðslu sjúkdóms. Hægt er að setja fólk, dýr eða staði í sóttkví. Þúsundir fóru í sóttkví á síðastliðnu ári til að stemma stigu við útbreiðslu heimsfaraldurs, margir oftar en einu sinni.

Orðið sóttkví snerti því stóran hluta landsmanna persónulega og var mjög áberandi í allri umræðu.

Stofnun Árna Magnússonar sótti orð ársins í textasöfn sem endurspegluðu umræðuna í fjölmiðlum og samfélaginu öllu.

Þríeykið hlaut afgerandi kosningu á RÚV.is

Þríeykið er skipað Ölmu D. Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

Þau þrjú hafa verið í fararbroddi frá því að faraldurinn hófst á Íslandi og veitt upplýsingar, gefið ráð, leiðbeiningar og fyrirskipanir á tíðum og reglubundnum upplýsingafundum Almannavarna.

Þjóðin lagði traust sitt á þau og það hefur haldist enda voru þau valin manneskjur ársins á Rás 2. Ekki var langt liðið á faraldurinn þegar farið var að kalla Ölmu, Víði og Þórólf einu nafni þríeykið, jafnt í umræðunum í heita pottinum þegar hann var opinn, sem í umfjöllun fjölmiðla, og allir vissu við hver var átt.

DEILA