Nýr þjóðgarður á þessu ári?

Alvöru áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum hafa verið í deiglunni frá ársbyrjun 2020 þegar undirbúningur hófst á mögulegri stækkun á náttúruvættinu Dynjanda og friðlandinu í Vatnsfirði í landi Brjánslækjar í samráði við sveitastjórnarmenn.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort afstaða íbúanna hefur verið könnuð í þessu sambandi.

Náttúruperlur

Á sunnanverðum Vestfjörðum eru ótal perlur sem tengjast náttúru, sögu og menningu og því komu snemma fram hugmyndir um að tengja verndarsvæðin saman og horfa jafnframt til Hrafnseyrar og Geirþjófsfjarðar og skapa um svæðið heildstæða og góða umgjörð en hluti af svæðinu er raunar þegar á náttúruminjaskrá. Þó er Mjólkárvirkjun undanskilin sem líklega yrði utan þjóðgarðs samkvæmt þeirri sviðsmynd sem nú er uppi. Ekkert er þó í vegi þess að virkjunin yrði hluti af þjóðgarðinum sjálfum.

Þjóðgarður á kosningaári

Fram kom í svari ráðherra að ef allt undirbúningsferlið gengi eftir samkvæmt áætlun gæti orðið af stofnun þjóðgarðsins þegar um mitt þetta ár. Í nóvember s.l. fór í gang 8 vikna kynningarferli sem nú er lokið og verið að vinna úr niðurstöðum og gerð friðlýsingarskilmála lögum samkvæmt. Þeir skilmálar fara síðan í 3ja mánaða almenna kynningu og ef ekki birtast ljón í veginum, þá getur ráðherra staðfest friðlýsingu fljótlega að því loknu.

Gestastofur

Ef þjóðgarður verður að veruleika, þá er eðlilegt að reist verði gestastofa og hugsanlega fleiri en ein. Gestastofur eru eftirsóknarverðar og reynast verulegur segull fyrir ferðafólk og þá sem eru á faraldsfæti.  Í fyrirspurn minni til ráðherra kom fram að enn hefur staðsetning þeirra ekki verið ákveðin. Bent er á að þegar séu fyrir hendi  innviðir sem hýst gætu slíka starfsemi, t.d. í Presthúsinu á Reykhólum þar sem er sýning um náttúruvættið Surtabrandsgil. Hið myndarlega setur á Hrafnseyri, höfuðbólið um Jón Sigurðsson er líka nefnt til sögunnar.  Ástæða er einnig til að benda á Þingeyri sem kjörið anddyri þjóðgarðsins og góðan stað fyrir gestastofu og ekki síður Flókalundur sem er vinsæll áningarstaður og náttúruperla.

Hvers vegna þjóðgarður?

Skoðanir almennings á tilvist eða mikilvægi þjóðgarða kunna að vera ýmislegar en eitt af markmiðunum er að tryggja aðgengi almennings til útivistar og til verndar og kynningar á náttúru og sögu svæðisins. Rannsóknir hafa sýnt að ferðamenn hafa áhuga á að kynna sér friðlýst svæði.  Líklegt er því að þjóðgarður á sunnanverðum Vestfjörðum muni auka umferð um það svæði sem verður hugsanlega að þjóðgarði.

Samgöngur eru lykillinn

Við horfum fram á stórbættar samgöngur innan tveggja ára, bæði um veginn á Dynjandisheiði sem yrði innan mögulegs þjóðgarðs og svo um Gufudalssveit sem er utan marka hans.  Ljóst er að bættar vegasamgöngur eru áherslumál allra Vestfirðinga og þingmenn kjördæmisins hafa það sem eitt af mikilvægustu verkefnum sínum að ýta þeim málum hratt áfram .

Innan þjóðgarða er gætt að því að lagning vega fari ekki gegn verndarmarkmiðum. Þjóðvegir liggja hindrunarlaust  í gegnum þjóðgarða um allan heim og líka hér á landi. Því er ekkert því til fyrirstöðu að þar séu góðir vegir og mikilvægt að við hönnun og endurhönnun þeirra sé gert ráð fyrir áningar- og útsýnisstöðum á friðlýstum svæðum þar sem ferðalangar geta notið útsýnis og upplifunar og að staðsetningin taki jafnframt mið af umferðaröryggi og flæði á svæðinu.

Uppbygging og innviðir

Eitt af grundvallaratriðum sem heimamenn eru eflaust uggandi um er uppbygging og þróun atvinnulífs í þessu sambandi, bygging mannvirkja og annarra innviða. Fljótt kemur upp í hugann flutningskerfi raforku sem þarfnast uppbyggingar víðast hvar á Vestfjörðum en um þau atriði verður eflaust fjallað í friðlýsingarskilmálum sem heimamenn taka þátt í að útfæra.

Vestfirðingar ráða ferðinni

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum íbúa og undirbúningi starfshóps sveitastjórnarfólks, ráðuneyta og opinberra stofnana varðandi þetta stóra skref sem hugsanlega verður stigið.  Það mun fela í sér tækifæri til vaxtar og þróunar með  virðingu fyrir náttúru og umhverfi að leiðarljósi. Sú virðing er heimamönnum í blóð borin.  Mikilvægt er að vel takist til og í veigamestum atriðum er það undir Vestfirðingum og íbúum á þessu svæði sjálfum komið.

Guðjón S. Brjánsson

þingmaður Samfylkingarinnar

NV kjördæmi

DEILA