Miðflokkurinn vil auðvelda ættliðaskipti á bújörðum

Þingflokkur Miðflokksins ásamt framkvæmdastjóra

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að auðvelda ættliðaskipti á bújörðum .

Tillagan gerir ráð fyrir því að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að sérhverjum jarðeiganda verði heimilt að ráðstafa jörð sinni á milli ættliða.

Heimilt verði að ráðstafa jörð til lögerfingja með hagkvæmum hætti og án þess að slík ráðstöfun myndi stofn til greiðslu erfðafjárskatts eða íþyngjandi skuldir viðtakanda jarðarinnar til annarra lögerfingja.

Nú eru lög þannig að vilji jarðeiganda að ráðstafa jörðinni með gjafagerningi eða fyrirframgreiðslu upp í arf er slík ráðstöfun skattskyld samkvæmt lögum um tekjuskatt eða lögum um erfðafjárskatt.

Ef jörðin er seld undir markaðsvirði til þess að tryggja áframhaldandi búrekstur hefur Skatturinn einnig litið svo á að um skattskylda gjöf sé að ræða.

Þegar verðmæti jarðarinnar er töluvert getur það verið afar íþyngjandi fyrir viðtakanda að fjármagna kaup á jörðinni á markaðsvirði eða standa straum af þeim opinberu gjöldum sem leggjast á framangreinda gerninga.

Þessar hindranir skapa óneitanlega hvata til þess að jarðir séu seldar hæstbjóðanda á almennum markaði.

Því er tilefni til þess að farið verði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest og að ungir bændur geti tekið við búum af eldri kynslóðum án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði segir í greinargerð með tillögunni.

DEILA