Merkir Íslendingar – Auður Auðuns

Auður Auðuns, borgarstjóri, alþm. og ráðherra, fæddist á Ísafirði 18. febrúar 1911. Hún var dóttir Jóns Auðuns Jónssonar, útgerðarmanns og alþm. á Ísafirði, og Margrétar Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju. Bróðir Auðar var Jón Auðuns, dómkirkjuprestur, dómprófastur og forseti Sálarrannsóknarfélagsins um árabil.

Auður var Vestfirðingur í báðar ættir, skyld Alþýðuflokksformönnunum Jóni Baldvinssyni og feðgunum Hannibal og Jóni Baldvini.

Eiginmaður Auðar var Hermann Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi tollstjórans í Reykjavík, og eignuðust þau fjögur börn.

Auður lauk stúdentsprófi frá MR 1929 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1935. Hún var lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar í tuttugu ár, bæjar- og síðar borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1946-70, forseti bæjar- og borgarstjórnar 1954-59 og 1960-70, borgarstjóri, ásamt Geir Hallgrímssyni 1959-60, alþm. 1959-74 og dóms- og kirkjumálaráðherra 1970-71.

Þegar Auður var dóms- og kirkjumálaráðherra var kvenréttindabaráttan að vakna af dvala eftir að hafa legið í láginni um langt árabil. Rauðsokkuhreyfingin sá dagsins ljós 1. maí 1970, Kvennaframboð bauð fram í sveitarstjórnarkosningum 1982 og fékk tvo fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar og Kvennalistinn var stofnaður 1983.

Auður átti fátt sameiginlegt með róttækum kvenréttindakonum þessara ára. Hún var íhaldssöm og borgaraleg í hugsun.

Engu síður er nafn hennar skráð skýrum stöfum í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu, því hún varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka emkbættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, fyrsta konan sem varð borgarstjóri og fyrsti kvenráðherrann.

Auður sat á Allsherjarþingi SÞ 1967 og var formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu SÞ í Mexíkóborg 1975.

Auður Auðuns lést þann 19. október 1999.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA