Ísafjörður: umsókn um stöðuleyfi ekki rétt afgreidd

Umsókn Snerpu ehf um stöðuleyfi fyrir gám var ekki afgreidd af réttum aðila innan Ísafjarðarbæjar og telst því óafgreidd. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Tildrög málsins er að Snerpa sótti síðastliðið sumar um  stöðuleyfi fyrir gám á lóð hússins að Mjallargötu 5, bak við bílskúr sem þar er.

Skipulags- og byggingarnend synjaði erindinu í ágúst með þeim rökum að að Mjallargata 5 væri á hverfisvernduðu íbúðasvæði. Snerpa gerði margvíslegar athugasemdir við afgreiðsluna, meðal annars að gámurinn væri ekki staðsettur á hverfisvernduðu íbúðasvæði heldur atvinnu- og íbúðasvæði,  og fór fram á að nefndin tæki málið fyrir að nýju.

Það var gert en nefndin stóð við fyrri ákvörðun.  Snerpa kærðu ákvörðunina til úrskurðarnefndar sem felldi sinn úrskurð í lok nóvember. Bendti úrskurðarnefndin á að það væri byggingarfulltrúi sem væri stjórnvaldið í þessu máli og að hann hefði ekki tekið ákvörðun. Umsóknin væri því óafgreidd. Þar sem málinu væri ekki lokið væri ekki hægt að bera það undir úrskurðarnefndina og kærunni var vísað frá. Kærandi gæti hins vegar kært  óhæfilegan drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sem er úrskurðarnefndin,  ef það dregst hjá Ísafjarðarbæ að afgreiða erindið.

Úrskurðurinn hefur verið kynntur í skipulags- og mannvirkjanefnd en byggingarfulltrúi hefur ekki afgreitt erindið. Umsóknin er því enn óafgreidd.

 

DEILA