Ísafjarðrbær fagnar þjóðgarði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fetaði í fótspor bæjarstjórnar Vesturbyggðar og fagnaði á fundi sínum fyrir helgina áformum um þjóðgarð á Vestfjörðum. En bæjarstjórnin vill að gætt verði að innviðauppbyggingu og að ekki verði settar takmarkanir á orkuöflun innan þjóðgarðsins.

Í bókun fundarins sem samþykkt var með níu samhljóða atkvæðum segir:

„Bæjarstjórn fagnar áformunum og tekur undir bókun bæjarráðs að mörg tækifæri séu fólgin í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá beri drög að friðlýsingaskilmálum þess merki að tekið hafi verið tillit til athugasemda og ábendinga íbúa og hagsmunaaðila þegar áform um stofnun þjóðgarðsins voru kynnt. Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.“

Bæjarstjórn hvetur íbúa og hagsmunaaðila til að skila sínum ábendingum og athugasemdum til Umhverfisstofnunar þegar friðlýsingarskilmálarnir verða auglýstir.

DEILA