Ísafjarðarbær: vill einingu um ráðningarferli sviðsstjóra

Stjórnsýsluhúsið Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ráðgjafafyrirtækið Intellecta leiðir vinnuna til undirbúnings að ráðningu sviðsstjóra Skóla- og tómstundasviðs. Sett hefur verið upp matrixa þar sem lagt var mat á einstaka þætti sem hver um sig hefur ákveðið vægi. Umsækjendur fengu einkunn frá 1-5 fyrir hvern matsþátt.

Niðurstaðan eftir framangreint mat var að boða fimm umsækjendur í viðtal, þrjár konur og tvo karla. Viðtölin fóru fram miðvikudaginn 17. febrúar s.l..

Lagt var mat á eftirfarandi þætti með einkunnagjöf á bilinu 1-5:


Starfsreynsla og þekking á skóla og tómstundamálum
Reynsla af rekstri, fjármálastjórn, gerð fjárhagsáætlana og samninga
Stjórnunarreynsla
Leiðtoga- og stjórnunarhæfni
Reynsla af opinberri stjórnsýslu
Hæfni í mannlegum samskiptum og sveigjanleiki
Skipulagshæfni og nákvæmni í vinnubrögðum

Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku, önnur tungumálakunnátta kostur
Góð almenn tölvukunnátta.

Rökstudd tillaga frá Intellecta og bæjarstjóra um ráðningu í
starfið verður lögð fyrir bæjarráð þann 1. mars n.k. og til afgreiðslu í bæjarstjórn þann 4. mars n.k. Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segir í minnisblaði til bæjarráðs að hann leggi á það mikla áherslu að eining sé í bæjarstjórn um að treysta þessu ferli.

Mannauðsstjóri og formaður bæjarráðs hafa lýst sig vanhæfa í þessu máli og koma ekki að því.

DEILA