Hvest: meira fé til reksturs heilsugæsluselja

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að nýja fjármögnunarkerfið fyrir heilsugæsluna, sem tilkynnt var um á dögunum færi stofnuninni meira fé til reksturs heilugæsluseljanna. Á starfsvæðinu er heilsugæsla á Ísafirði og Patreksfirði og sel annars staðar, þ.e. á Þingeyri, í Bolungarvík, Súðavík, á Suðureyri, Flateyri, Bíldudal og Tálknafirði.

„Með þá niðurstöðu höfum við endurnýjað samning um leigu á húsnæðinu á Suðureyri, opnað nýtt sel á Flateyri, erum að fara að láta fríska upp á húsnæðið á Tálknafirði og höfum óskað eftir að framkvæmdir í Bolungarvík verði teknar upp aftur eftir að hafa verið í óvissu, m.a. meðan fjármögnunarkerfið var enn í drögum og óljóst hvort við fengjum greiðslur upp í þann aukakostnað sem þeim rekstri fylgir.“ segir Gylfi.

Þá hafa fengist peningar í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri í fyrra til þess að kaupa neyðarbúnað og þjálfa vettvangsliða en það er ótengt fjármögnunarkerfinu.

Um nýja kerfið segir Gylfi: .“Kerfið gerir það að verkum að fjármögnun okkar verður gegnsærri þannig að við vitum fyrir hvað við fáum greitt og fyrir hvað við fáum ekki greitt. Við sjáum hvaða mælikvarðar eru notaðir til að meta gæði þjónustunnar, getum borið okkur saman við stofnanir af sambærilegu tagi, lært hvert af öðru og eflt forvarnastarf.“

DEILA