Hvað á að selja?

Hlíf. Mynd: Ísafjarðarbær.

Vart hefur farið framhjá íbúum Ísafjarðar að upp er komin deila um hvort selja beri íbúðir sem byggðar voru seint á síðustu öld í þeim tilgangi að bæta aðbúnað eldi borgara í bænum.

Engar deilur voru um að hér var stigið stórt framfaraskref í þessum málaflokki því aðbúnaður að elstu borgurum bæjarins var vægast sagt ófullnægjandi á þeim tíma. Lengi hafði verið safnað fyrir úrbótum í þeim málaflokki með skattlagningu á aðgöngumiðum í kvikmyndahúsi bæjarins, Alþýðuhúsinu. Þegar málið var að komast í höfn sýndu bæjarbúar hug sinn með gjöfum til Hlífar.

Nú þarf ekkert að deila um að staða allra sveitarfélaga á Íslandi hefur versnað vegna þess heimsfaraldurs sem geisað hefur í rúmlega eitt ár. Það er því eðlilegasti hlutur að sveitarfélög grípi til þess ráðs að selja eignir og ekki síst fasteignir sem sveitarfélögin hafa eignast af ýmsum ástæðum. En það hlýtur að vera hægt að forgangsraða með einhverjum hætti hvaða eignir eigi að selja.

Nú hefur verið upplýst að í eigu bæjarins séu á annað hundrað íbúðir eða sem nemi einni íbúð á hverja 30 íbúa bæjarins. Því hlýtur að vakna spurningin er nauðsynlegt að hefja söluferlið á íbúðum eldri borgara á Hlíf I við Torfnes? Ég tel að vart verði um það deilt að engin önnur fasteign í eigu Ísafjarðarbæjar á sér álíka forsögu og einmitt þessar íbúðir. Það er einnig hægt að ímynda sér hvernig leigjendum þessara íbúða hefur orðið við þegar þeim berst bréf um að heimili þeirra sé á leið á sölumarkað, hvað svo sem bréfið hefur að öðru leyti innihaldið.Þetta mál er þess eðlis að það hlýtur að teljast meiriháttar stefnubreyting af hálfu bæjaryfirvalda sem alls ekki var kynnt í stefnuskrá flokkanna fyrir síðustu kosningar.

Vera má að sala fasteigna hafi komið þar fram en það er fráleitt að flokka sölu fasteigna, með þá forsögu sem Hlíf I á og tilganginn með byggingunni, sem almenn fasteignaviðskipti. Nú kom fram í fréttum nýverið að „ákveðið hefði verið að selja íbúðir fyrir aldraða í Ísafjarðarbæ“. Sá er þessar línur ritar hélt í einfeldni sinni að slíkar ákvarðanir væri einungis hægt að taka í bæjarstjórn en ekki er til þess vitað að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi afgreitt þetta mál.

Það er rétt í þessu sambandi að minna bæjarfulltrúa á að þeirra hlutverk er fyrst og síðast að vera þjónar fólksins í sínu sveitarfélagi og ber þeim því að gæta þess að ákvarðanir gangi ekki í berhögg við vilja meginþorra íbúanna. Í þessu máli, sem hlýtur að teljast meiriháttar stefnubreyting sem hefur áhrif á líf fjölda manna, liggur alls ekki fyrir að ákvörðunin njóti samþykkis meirihluta bæjarbúa og með tilliti til mikilvægis málsins á það að vera sjálfsagt mál að hugur bæjarbúa til þess sé kannaður með ótvíræðum hætti.

Ekkert þarf að deila um að bæjaryfirvöld geta strax hafið söluferli á öðrum fasteignum en þessum. Það leikur enginn vafi á að þetta mál er þess eðlis að bæjarbúar eiga beinlínis rétt á því að fá að láta skoðun sín í ljósi með ótvíræðum hætti.

Undirritaður vill því skora á Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að undirbúa atkvæðagreiðslu á meðal íbúa bæjarins um hvort selja beri íbúðir á Hlíf I eða ekki.

Hagkvæmast væri að sú kosning færi fram samhliða kosningum til Alþingis í haust. Ég er þess fullviss að fleiri en undirritaður bíða svars bæjarstjórnar við þeirri áskorun.

Ólafur Bjarni Halldórsson

DEILA