Heilsugæslan: nýtt fjármögnunarkerfi

Um síðustu áramót tók gildi nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni. Í fréttatilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu segir að þetta sé liður í að innleiða þjónustutengda fjármögnun heilbrigðisþjónustu um allt land. Markmiðið er að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar og stuðla að því að grunnheilbrigðisþjónusta sé veitt í sem mestum mæli á heilsugæslustöðvum. Greiðslur taka mið af þjónustuþörf notenda.

Allir sjúkratryggðir íbúar landsins eru skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslulækni. Fjármögnunin byggist á því hvernig samsetning hópsins er sem skráður er hjá viðkomandi heilsugæslustöð og hver sé vænt þjónustuþörf hópsins með hliðsjón af aldri, kyni og sjúkdómsbyrði. Einnig tekur kerfið tillit til félagslegra aðstæðna þeirra sem skráðir eru á stöðina og ýmissa fleiri þátta sem vitað er að hafa áhrif á kostnað við þjónustu heilsugæslustöðva. Í þessu felst að heilsugæslustöð fær t.d. meira greitt fyrir sjúkling sem er aldraður með þunga sjúkdómsbyrði heldur en þann sem er á besta aldri og almennt við góða heilsu.

Nýja fjármögnunarlíkanið nær til 33 heilsugæslustöðva á landsbyggðinni sem heyra undir sex heilbrigðisstofnanir. Margar heilsugæslustöðvanna eru með fleiri en eina starfsstöð og eru starfsstöðvarnar samtals 56. Meðal þeirra er Heilsugæslan á Ísafirði sem þjónar öllum norðanverðum Vestfjörðum, heilsugæslan á Hólmavík sem nær yfir Strandasýsluna, heilsugæsluna í Búðardal sem nær yfir Reykhólasveitina og heilsugæsluna Patreksfirði sem þjónar sunnanverðum Vestfjörðum.

DEILA