Háar lántökur hjá Lánasjóði sveitarfélaga

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa verið að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til þess að brúa fjárþörf sína á þessu ári.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að taka 416 milljón króna lán hjá sjóðnum. Segir í bókun að lántakan sé í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2021 og er tekið til að endurfjármagna hluta afborgana lána sveitarfélagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga á árinu 2021 og til að fjármagna framkvæmdir og fjárfestingar á árinu 2021.

Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur samþykkt að taka 185 milljón króna lán hjá Lánasjóðnum sem verður með lokagjalddaga í apríl 2034. Er lánið tekið til að endurfjármagna afborganir sveitarfélagsins og Bolungarvíkurhafnar ásamt fjárfestingum á árinu 2021, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu,

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að taka lán að fjárhæð tæplega 76 milljónir króna með lokagjalddaga þann 15. nóvember 2055. Er lánið tekið til endurfjármögnunar á eldri lánum hjá Lánasjóðnum sem upphaflega voru tekin vegna framkvæmda sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu eins og segir í bókun sveitarstjórnar.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur ekki afgreitt lánsumsókn en í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2021 er gert ráð fyrir því að taka ný langtímalán fyrir 1 milljarð króna og að afborganir eldri langtímalána verði 1.027 milljónir króna.