Fámenn sveitarfélög formgera samráð

Unnið er að því að formgera samtök minni sveitarfélaga innan sambands íslenskra sveitarfélaga. Um er að ræða nokkurn fjölda fámennra sveitarfélaga  eða um 20 sveitarfélög og er ætlunin að vinna að sameigilegum hagsmunum þeirra. Fimm manna undirbúningsnefnd er að störfum.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík er einn þeirra og segir hann að tilefnið sé opinber stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnvalda um sameiningu sveitarfélaga á næstu árum með beinni lagasetningu. Frumvarps ríkisstjórnarinnar hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og verði það samþykkt munu sveitarfélög sem eru fámennari en 1000 manns verða sameinuð öðrum sveitarfélögum eigi síðar 2026 og þau sem nú eru fámennari en 250 manns verða sameinuð fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar sem verða 2022.

Jón Páll segir að hlutverk samtakanna verði einkum að tala fyrir sjónarmiðum minni sveitarfélaga svo sem með því gefa umsögn um frumvörp og í öðru lagi að ræða við önnur sveitarfélög innan sambands íslenskra sveitarfélaga og freista þess að ná samkomulagi um stefnumörkun.

Málið var rætt á fundi bæjarráðs Bolungavíkur í síðustu viku og fól bæjarráðið bæjarstjóra að vinna áfram með hópi minni sveitarfélaga að hagsmunum þeirra.

DEILA