Búsetuskilyrði talin síst á sunnanverðum Vestfjörðum

Tíu mikilvægustu búsetuskilyrðin.

Búsetskilyrði á sunnanverðum Vestfjörðum eru af íbúum svæðisins talin það slæm að svæðið lendir neðst af 24 svæðum landsins í könnun sem unnin var á síðasta ári að frumkvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Það var Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi sem hafði yfirumsjón með könnuninni og fékk liðsinni Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri við könnun á viðhorfi íbúa á búsetuskilyrðum eigin svæðis.

Landinu var skipt í 24 svæði og fengust rúmlega 10 þúsund svör á landinu öllu. Vestfjörðum var skipt í þrjú svæði, norðanverða Vestfirði, sunnanverða Vestfirði og Reykhólasveit og Strandir saman. Alls fengust 979 svör af Vestfjörðum. Sambærileg könnun var gerð 2016/17 og eru niðurstöðurnar þá og nú bornar saman.

Alls voru 40 atriði metin sem varða búsetuskilyrði og lúta þau að atvinnu, þjónustu, samgöngum, menntun o.fl. Könnunn fór fram á þremur tungumálum í september og október 2020. Svarendur gáfu hverjum þætti á sínu svæði einkunn.

Sunnanverðir Vestfirðir lægstir

Þegar safnað er saman og svæðum raðað og gefin stig á þann veg að efsta svæðið fær 40 stig og neðsta svæðið 1 stig fæst sú niðurstaða að Vestmannaeyjar eru í efsta sæti, höfuðborgarsvæðið í 5. sæti, norðanverðir Vestfirði í 10. sæti, Strandir og Reykhólar í 22. sæti og sunnanverðir Vestfirðir neðstir í 24. sæti.

Sé ofangreind niðurstaða skoðuð í samanburði við höfuðborgarsvæðið þá fá norðanverðir Vestfirðir stigagjöf sem er 92% af stigum þess, Strandir/Reykhólar fá 54% og sunnanverðir Vestfirðir fá 41%.

Skilyrðin hafa versnað á öllum Vestfjörðum

Það kemur í ljós þegar einkunnagjöfinni er breytt og tekið tillit til þess munar sem mælist milli svæða þannig að þegar munurinn er lítill eru gefin færri stig og þegar munurinn er meiri fást fleiri stig að búsetuskilyrðin á öllum þremur svæðum Vestfjarða eru talin hafa versnað frá fyrri könnun. Áhyggjuefni hlýtur að teljast að aðeins á einu öðru svæði á landinu hafa skilyrðin versnað svo einhverju nemur, en það er í Reykjanesbæ.

Eftir sem áður lenda sunnanverðir Vestfirðir í neðsta sæti og Reykhólar, Strandir í 22. sæti. Norðanverðir Vestfirðir lækka í 12. sæti í þessum samanburði frá 10. sætinu. Höfuðborgarsvæðið lækkar einnig og verður aðeins í 9. sæti.

DEILA