Bolungavík: Vélvirkinn til sölu

Trillan Benni Vagn við húsnæði Vélvirkjans. Benedikt Steinn Benediktsson stendur við trilluna.

Vélsmiðjan Vélvirkinn s/f í Bolungavík hefur verið sett á sölu. Fyrirtækið stofnuðu bræðurnir Víðir Benediktsson og Benedikt Steinn Benediktsson í aprílmánuði 1976 og hefur það verið í fullum rekstri síðan.

Víðir sagði í samtali við Bæjarins besta að komið væri að tímamótum hjá þeim bræðrum og þeir hefði ákveðið að selja fyrirtækið. Sagðist hann vonast til þess að „einhverjir sjái hér tækifæri svo það geti starfað áfram hér í þessum góða bæ Bolungarvík.“

Til sölu er fyrirtækið ásamt vélum, góðum lager og rekstrarvörum fyrir skip og báta. Smiðjan er í eigin 450 fermetra húsnæði og stendur á 1364 m2 lóð við höfnina. Einnig er til sölu rekstur ,lager og innréttingar Verslunar okkar ( Oft kölluð Ótrúlega búðin ) að Aðalstræti 13-15 sem er þar í leiguhúsnæði á besta stað í Bolungarvík.

Víðir segir að það hafi líklega verið einhver metnaður af hálfu þeirra bræðra að fara út í atvinnurekstur á sínum, “ vilji til þess að koma sér áfram og geta framfleytt fjölskyldu sinni. Við komum frá barnmörgu heimili og vildum sækja fram.“ Aðspurður sagði Víðir að eftir á að hyggja hefði hann liklega viljað sleppa því að fara í rekstur og í seinni tíð væri þyngra að stunda atvinnurekstur vegna aukinna krafna.

DEILA