Bíldudalur: Arnarlax hyggst reisa bráðabirgðahúsnæði fyrir 40 manns

Völuvöllur er nefnt eftir Völu Flosadóttur, stangarstökkvara.

Skipulags- og umhverfisráði Vesturbyggðar hefur borist erindi frá Arnarlax þar sem sótt er um leyfi fyrir tímabundnu húsnæði ofan við Völuvöll, Bíldudal. Skv. umsókninni er um gámaeiningar að ræða fyrir allt að 40 manns með alrými með eldhúsi o.fl. Húsnæðið er hugsað til 3-5 ára. Fram kemur í erindinu að erfitt hefur reynst að manna vaktir í laxasláturhúsinu á Bíldudal vegna takmarkaðrar vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, þar sem starfsmennirnir hafa verið búsettir í öðrum þéttbýliskjörnum, en vaktir í sláturhúsi eru áætlaðar frá 04:00 – 22:00.

Svæðið er í dag skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og í endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035, sem nú er í vinnslu, verður svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði. 

Nefndin tekur jákvætt í erindið

Nefndin bókaði eftirfarandi:

 „Í ljósi þess mikla húsnæðisvanda sem skapast hefur á Bíldudal í kjölfar fjölgunar íbúa, tekur skipulags- og umhverfisráð jákvætt í erindi Arnarlax um aðstöðu fyrir tímabundna búsetu á fyrirhuguðu íbúðasvæði (skv. tillögu að aðalskipulagi 2018-2035) við Völuvöll. Skipulags- og umhverfisráð leggur áherslu á að vandað verði til verka við ásýnd og uppsetningu aðstöðunnar og að náið samráð verði við bæjarfélagið um útfærsluna sem skal ekki vera hugsuð til lengri tíma en þriggja ára.“

Gengið verði frá endanlegu leyfi þegar gengið hefur verið frá samkomulagi við fyrirtækið um skilyrði fyrir svæðinu.

DEILA