Áform um 7,5 MW virkjanir í Dýrafirði

Landeigendur jarðanna Dranga og Botns í Dýrafirði hafa hug á að gera tvær virkjanir í botni Dýrafjarðar sem samtals gefa 7,5 MW afl.

Verkís ehf. fyrir þeirra hönd óskað eftir heimild til að vinna tillögu að
deiliskipulagi fyrir virkjanirnar, Botnsvirkjun og Hvallátursvirkjun. Unnið verður deiliskipulag fyrir hvora virkjun fyrir sig. Jafnframt er óskað eftir að ofangreind áform verði tekin til skoðunar við endurskoðun aðalskipulags Ísafjarðarbæjar.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur tekið erindið fyrir og leggur til við bæjarstjórn að heimila vinnslu á deiliskipulagi Botnsvirkjunar og Hvallátursvirkjunnar.
Nefndin bendir þó á að svæðið er undir friðlýsingu frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem og hverfisvernd í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og því er ekki samræmi milli áforma og aðalskipulags. Beiðninni um breytingu á aðalskipulagi var vísað inn í vinnu við endurskoðun aðalskipulags Ísafjarðarbæjar.

Botnsvirkjun 5 MW

Botnsvirkjun er þannig lýst í skipulagslýsingu að hún yrði allt að 5 MW
rennslisvirkjun með mögulegri dægurmiðlun, sem nýtir hluta rennslis
Botnsár og Drangár í landi Botns og Dranga í botni Dýrafjarðar.
Árnar eru dragár sem eiga upptök sín að mestu í vötnum á Glámuhálendinu.
Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450
m hæð yfir sjávarmáli. Þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s neðan við núverandi skógræktarsvæði. Stærð stöðvarhúss er áætlað allt að 150 m².
Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga.

Hvallátursvirkjun 2,5 MW

Hvallátursvirkjun yrði allt að 2,5 MW rennslisvirkjunar með mögulegri dægurmiðlun í Hvallátradalsá í landi Botns í Dýrafirði.
Hvallátradalsá er dragá og er vatnasvið hennar um 4,8 km². Rennsli árinnar
er nokkuð stöðugt og athuganir gefa vísbendingu um að virkjunarkosturinn
sé álitlegur. Unnið er að frekari rannsóknum.
Áætlað er að inntaksmannvirki verði staðsett í um 420 m h.y.s. Þaðan liggi
niðurgrafin þrýstipípa vestan árinnar um 2,3 km leið að stöðvarhúsi sem
staðsett verði ofan við sjávarmál. Stærð stöðvarhúss er áætlað um 80 m².
Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga.

Í tímaáætlun kemur fram að unnt verði að afgreiða nýtt deiliskipulag í febrúar 2022.

Báðar virkjanirnar falla í flokk B skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og eru framkvæmdirnar því tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um hvort framkvæmdirnar skulu háðar mati.

DEILA