Vigur: bryggan mikið skemmd

Frá Vigur.

Bryggjan í Vigur er mikið skemmd, en að sögn Braga Thoroddsen, sveitarstjóra hefur það ágerst frá gerningaveðri í janúar og febrúar 2020. „Mikil breyting varð hér um allar fjörur í Djúpi og víðar á landinu, grjót hefur færst til í brimi sem ekki hefur orðið vart fyrr með þeim hætti, a.m.k. ekki nýlega.“

Ástand bryggjunnar var til umræðu á síðasta fundi sveitarstjórnar og gerði sveitarstjóri grein fyrir málinu.

Snemma árs 2020 var haft samband við Vegagerðina vegna ástandsins, en einhver áhöld eru um eignarhald á bryggjunni í Vigur og aðkomu Vegagerðarinnar. „Að sögn þeirra hefur Vegagerðin ekki umsjón með henni, en þó hafa einhverjar viðræður átt sér stað milli Gísla Jónssonar í Vigur og þeirra um lagfæringar og kostnað.“ segir Bragi.

„Ég var í sambandi við Gísla Jónsson í Vigur út af þessari stöðu og í framhaldinu sendi hann mér erindi. Ég leyfi mér að vitna aðeins í póstinn“ segir Bragi:

[…hefur bryggjan og flotbryggja verulega látið á sjá síðasta ár…] […síðasti vetur reyndist sérstaklega harður sem má sjá á töluverðum landbroti og skemmdum á brú út á bryggjustöpul auk þess sem stiga sunnanmeginn tók af og er nú bara einn stigi en það er ryðgaður af honum botninn og er því um 1,5m of stuttur.]

[Flotbryggjan brotnaði frá í byrjun ágúst og var dregin á land en í ljós kom að stál festingar voru úr sér gengnar og timbur fúið og eða slitið. Ég sendi teikningar af stálfestingum og stiga í vélsmiðju ÞM Hnífsdalsvegi og hafa þeir smíðað það sem nauðsynlega vantar í samstarfi við Vegagerðina en það á eftir að koma þessu út í Vigur og setja upp.]

[Í haust klipptust í sundur bitar undir festibaulum í  brúargõlfinu sem orsakar það að brúargólfið losnar og var að lyftast um 5-10 cm af burðarbitunum í hvert sinn sem alda skellur uppundir þá. Ég náði að slá timbur undir baulurnar þegar frostið slaknaði um miðjan des. til bráðabirgða og hefur það haldið síðan.]

[Krani: kraninn er okkur nauðsynlegur til að sjósetja zodiakinn okkar sem við notum til að komast í land auk þess sem öll aðföng eru hífð úr stærri bátnum, slöngur sprungu í honum en þær voru orðnar fúnar af elli ég er búinn að láta smíða nýja slöngur en eftir að koma þeim í, það hefur líka verið að slá út rafmagnið fyrir hann og líklegt að komið sé tími á þétta í mótor (samkvæmt samtali við rafvirkja) þetta er risastór 3gja fasa mótor sem er einhvað mixaður til að ganga á einum fasa. Ég smurði og ryðvarði kranann í sumar og í haust en hefði þurft að ryðberja og mála líka.]

[Varðandi rafmagn þá er hér 1 fasa sveitarafmagn sem er farið að há okkur verulega, það er orðið illmögulegt að fá mótora sem eru eins fasa auk þess sem þeir litlu mótorar sem fást eru dýrir.] 

Bragi segir að hann hafi verið í sambandi við Vegagerðina og muni verða það áfram. „Þetta er bara spurning um aðkomu Súðavíkuhrepps að málinu.“

Sveitarstjóra var falið að ræða við Vegagerðina um eignarhald og mikilvægi bryggju í Vigur þar sem eini samgöngumátinn er sjóleiðin.

DEILA