Vindskafin ský

Vindskafin ský eru kyrrstæð linsulöguð ský sem myndast yfir fjöllum og stundum hlémegin.

Það má segja að þau liggi samhliða vindáttinni, þ.e. vindurinn blæs í gegnum skýin.

Líkt og öðrum skýjum má skipta vindsköfnum skýjum í gerðir eftir því í hvaða hæð þau myndast: vindskafin flákaský (stratocumulus lenticularis) eru í 0-2 km hæð, vindskafin netjuský (altocumulus lenticularis) eru í 2-6 km hæð og vindskafin maríutása (cirrocumulus lenticularis) er í 6-12 km hæð.
Algengust eru þó vindskafin netjuský.

Þegar stöðugt loft streymir yfir fjöll eða fjallgarða myndast kyrrstæðar bylgjur yfir og stundum hlémegin við fjöllin.
Ef hiti efst í bylgjunni er líkur eða lægri en daggarmark loftsins sem streymir að þá þéttist rakinn og myndar linsulöguð ský.
Þegar rakt loftið streymir svo niður í bylgjunni þá hlýnar það aftur og skýið getur gufað upp.
Það má því segja að skýið endurnýi sig stöðugt, þar sem loftið sem í sífellu streymir upp bylgjuna kólnar og vatnsgufa þéttist en á leið niður bylgjuna hlýnar loftið aftur og vatnsdropar gufa upp.

Þegar sagt er að skýin séu kyrrstæð er átt við að þau flytjast ekki með vindinum.

Þau þurfa þó ekki að vera langlíf og oft má sjá talsverðar breytingar á þeim á stuttum tíma.

DEILA