Vilja breyta ráðstöfun útvarpsgjalds

Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson alþingismenn Miðflokksins  í Norðvesturkjördæmi hafa ásamt öðrum þingmönnum flokksins lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem skattgreiðendum verði heimilað að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins.

Bergþór Ólason segir að hann telji að að hlutfallslega mest af þessum hluta gjaldsins muni ganga til staðbundinna miðla sem njóta velvildar heimamanna.

Í greinargerð með tillögunni segir að lagt sé til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins.

„Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning og dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.“

Flutningsmanna telja að það þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla en RÚV á markaðinum. Átt sé við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar. Með því að ráðstafa nær öllum opinberum stuðningi til RÚV sem fer til fjölmiðla sé verið að vinna gegn því fjölbreytilegri þjóðfélagsumræðu.

 

 

DEILA