Vesturbyggð: vilja kanna sameiningu við Tálknafjörð

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að láta vinna greiningu og könnun á hagkvæmni þess að Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinist og sækja til þess styrk til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þrátt fyrir að óformlegar viðræður milli sveitarfélaganna hafi ekki borið árangur né leitt til þess að sveitarfélögin standi tvö að slíkri greiningu og könnun.

Í bókun bæjarstjórnar segir :

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar telur nauðsynlegt að fyrir liggi greining á því hver raunveruleg hagkvæmni er af því að eitt sveitarfélag verði til á sunnanverðum Vestfjörðum, m.a. í ljósi þeirra fjárveitinga sem standa sveitarfélögum til boða vegna sameininga og með tilliti til samlegðaráhrifa og rekstrarhagkvæmni fyrir íbúa og atvinnulíf. Ljóst má vera að með ennfrekari uppbyggingu innviða á svæðinu, s.s. með gerð jarðganga undir Mikladal og Hálfdán verði til enn öflugri heild sem nauðsynlegt er að stilla saman með skilvirkum hætti.“

DEILA